Fjöldi Breta flutti eftir Brexit-atkvæðagreiðslu

AFP

Bretum sem hafa flutt búferlum til ríkja Evrópusambandsins hefur fjölgað um 30% frá því þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit var haldin í júní 2016. Helmingur þeirra tók ákvörðun um flutninga á fyrstu þremur mánuðum frá atkvæðagreiðslunni. Þetta kemur fram í rannsókn sem Guardian fjallar um í dag.

Rannsóknin byggir á gögnum frá OECD og Eurostat og sýnir að á árunum 2008-2015 fluttu að meðaltali 56.832 Bretar á ári hverju til annarra ríkja ESB. Aftur á móti á árunum 2016-2018 voru þeir 73.642 að meðaltali á ári.

Rannsóknin sýnir enn fremur að fimm sinnum fleiri skipta um ríkisfang nú en áður.

Daniel Auer, sem er einn af þeim sem vann rannsóknina, segir að þessi aukning sé það mikil að það sé eins og ríki hafi lent í annaðhvort efnahags- eða stjórnmálakreppu.

Flestir fluttu til Spánar en talið er að um 380 þúsund Bretar búi þar og fjölgaði þeim gríðarlega eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Frakkland er annað vinsælasta landið meðal brottfluttra Breta.

Hér er hægt að lesa greinina í Guardian í heild

Rannsóknin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert