Laumast út þrátt fyrir einangrun

Erfiðlega hefur gengið að fá fólk sem er smitað af kórónuveirunni í Victoria-ríki í Ástralíu til að halda sig heima. Yfirvöld hóta því að leggja háar fjársektir við brotum á sóttvarnareglum.

Önnur bylgja kórónuveirufaraldursins geisar nú í ríkinu og hefur þurft að grípa til harðra aðgerða til að stemma stigu við fjölgun smita undanfarið. Til að mynda búa íbúar Melbourne, sem er önnur stærsta borg Ástralíu, við útgöngubann frá klukkan 20 að kvöldi til fimm á morgnana auk þess sem hættuástandi hefur verið lýst yfir í ríkinu, vinnustöðum lokað og öll ónauðsynleg útivera bönnuð.

Þrátt fyrir harðar aðgerðir reyndust rúmlega 25% þeirra sem heimsóttir voru og eru með COVID-19 smit ekki vera heima þegar það var kannað. Alls 800 sýktir einstaklingar. Forsætisráðherra Victoria, Daniel Andrews, segir þetta algjörlega óásættanlegt.

Að sögn Andrews má sekta fólk sem er með COVID-19 um tæplega fimm þúsund Ástralíudali, sem svarar til 480 þúsund króna, á staðnum ef það er gripið utan heimilis. Hefur sektin verið hækkuð umtalsvert frá því sem áður var. Eina undantekningin er ef fólk er að leita sér aðstoðar á bráðamóttöku. Áður var það þannig að fólk mátti fara út til að hreyfa sig. 

Þeir sem verða uppvísir að alvarlegum brotum eiga saksókn yfir höfði sér og 20 þúsund dala sekt. 

Til þess að fylgjast betur með hefur 500 hermönnum verið gert að aðstoða heilbrigðisyfirvöld við að fara á heimili þeirra sem eru smitaðir til að kanna hvort fólk er heima í einangrun líkt og það á að vera.

Lögreglustjórinn í Victoria, Shane Patton, segir að hundruð lögreglumanna verði á götum úti til að tryggja að útgöngubannið sé virt. Að fólk noti grímur og að reglur um að halda sig heima séu virtar. 

Patton segir að lítill, en stækkandi, hópur fólks telji sig hafna yfir lög og brjóti ítrekað reglur um sóttvarnir. Þetta fólk neitar að gefa upplýsingar um nafn og heimilisfang þegar það er stöðvað og í síðustu viku þurfti lögreglan í fjórgang að brjóta rúður bíla og draga fólk út úr bílum sínum vegna þessa. 

Alls eru yfir 12 þúsund kórónuveirusmit skráð í Victoria en alls hafa 19 þúsund greinst með veiruna í Ástralíu. Af þeim eru 147 af þeim 232 sem hafa látist íbúar Victoria. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert