Lík á götum úti og fjölmargir án læknisaðstoðar

Þyrla reynir að slökkva elda á hafnarsvæðinu í Beirút fyrr …
Þyrla reynir að slökkva elda á hafnarsvæðinu í Beirút fyrr í dag. AFP

„Ég var í borginni Broumana, sem í tæplega 20 kílómetra fjarlægð frá Beirút, og allt í einu fundum við jörðina skjálfa og heyrðum sprengingu,“ segir Líbaninn Nour Bour Malhab við mbl.is. Að minnsta kosti 78 eru látin og rúmleg þrjú þúsund slösuð eftir tvær sprengingar sem sprungu í Beirút, höfuðborg Líbanon um miðjan daginn.

Abbas Ibrahim, yfirmaður almannavarna í Líbanon, sagði líklegustu skýringuna á sprengingunum þá að eldur hafi borist í vöruskemmu þar sem sprengiefni sem gert hafði verið upptækt var geymt. 

Malhab segir að bygging þar sem hún var, í tæplega 20 kílómetra fjarlægð frá sprengingunni, hafi nötrað líkt og um öflugan jarðskjálfta hafi verið að ræða og ýmislegt lauslegt hafi fallið úr hillum.

Hún segir ástandið í landinu slæmt en efnahagurinn þar er í rúst og fjölmenn mótmæli hafa verið haldin í Beirút síðustu daga og vikur.

Eyðileggingin er mikil í 20 kílómetra fjarlægð frá Beirút.
Eyðileggingin er mikil í 20 kílómetra fjarlægð frá Beirút. Ljósmynd/Aðsend

Það sé auðvitað ekki hægt að líkja því við eyðilegginguna sem blasi við í höfuðborginni í dag.

„Lík fólks liggja á götum úti og fjöldinn allur fær ekki þá læknisaðstoð sem þörf er á,“ segir Malhab og bætir við að spítalar borgarinnar anni engan veginn öllum hinum særðu. Hún óttast enn fremur að mun fleiri hafi látið lífið en greint hafi verið frá.

AFP

Sprengingarnar urðu á hafnarsvæðinu og segir Malhab svæðið rústir einar. „Við þurfum aðstoð frá alþjóðasamfélaginu eins fljótt og auðið er.“

mbl.is