Ólýsanleg sorg

Frá vettvangi glæpsins í Botkyrka.
Frá vettvangi glæpsins í Botkyrka. AFP
Ekki er hægt að lýsa sorg foreldra sem missa börn sín með þessum hætti í orðum. Þetta er skelfilegt og reiði almennings í garð glæpagengja er greinileg segir Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar. Hann var gestur morgunþáttarins í sænska ríkissjónvarpinu í morgun vegna dráps á tólf ára gamalli stúlku í Nors­borg í sveit­ar­fé­lag­inu Bot­kyrka, sunn­an við Stokk­hólm, aðfaranótt sunnudags. 
AFP
Damberg segir að mikill viðbúnaður sé hjá lögreglu og morðingjans leitað um allt land. Allt verði gert til þess að tryggja að hann verði dæmdur fyrir ódæðið. 
Hann biður vitni og alla þá sem geti veitt upplýsingar um morðið að hafa samband við lögreglu. Það sé fólk sem viti hver skaut. Sá einstaklingur eigi sér enga málsvörn og ekki eigi að halda hlífiskildi yfir manni sem myrti 12 ára barn. 
AFP

Hann segir að helsta og um leið besta vörnin gegn skipulagðri glæpastarfsemi sé lögreglan. Mikilvægt sé að fjölga í lögreglunni og bæta tækjakost hennar. Aftur á móti er það unnið fyrir gíg ef ekki tekst að forða ungu fólki frá því að ganga til liðs við glæpasamtök.  

Gríðarleg reiði er meðal almennings í Svíþjóð eftir að stúlkan var skotin til bana að næturlagi þar sem hún var úti að ganga með hundinn. Hún var skotin til bana skammt frá bensínstöð og er talið að morðinginn hafi ætlað sér að skjóta tvo liðsmenn glæpasamtaka. 

AFP

Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins en leitað er upplýsinga um hvítan bíl sem sást á svæðinu um svipað leyti og hún var skotin. Dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Morgan Johansson, hefur heitið því að fjölgað verði í lögreglunni og dómar hertir í málum sem þessum. 

Lögreglan hefur fengið auknar heimildir í Svíþjóð undanfarin ár í kjölfar fjölgunar skot- og sprengjutilræða. Má þar nefna vitnavernd og harðari refsingar fyrir glæpi sem tengjast brotum á fíkniefna- og vopnalöggjöfinni.  

Á fyrstu sex mánuðum ársins létust 20 manns í 163 skotárásum í Svíþjóð. Í fyrra voru 42 drepnir í 334 skotárásum.

mbl.is