Rjúpnaskytta fundin eftir 40 ár?

Holden-vatnið í Steinkjer. Jarðneskar leifar sem fundust í vatninu á …
Holden-vatnið í Steinkjer. Jarðneskar leifar sem fundust í vatninu á laugardaginn gætu verið af rjúpnaskyttu sem hvarf sporlaust árið 1981 eða fjölskylduföður sem enginn hefur haft spurnir af síðan 1998. Ljósmynd/Wikipedia/Cato Edvardsen

Lögreglan í Þrændalögum í Noregi rannsakar nú hvort jarðneskar leifar manneskju, sem fundust í stöðuvatninu Holden í Steinkjer á laugardaginn, geti varpað ljósi á örlög rjúpnaskyttu frá Þrándheimi sem hvarf sporlaust á þessum slóðum árið 1981, fyrir tæpum 40 árum.

Rjúpnaskyttan er þó ekki eini möguleikinn, árið 1998 hvarf fjölskyldufaðir frá Malm eins og jörðin hefði gleypt hann, en Holden-vatnið, sem heimamenn kalla reyndar Hørdin, er í Malm, Steinkjer er nafn sveitarfélagsins.

Vegfarandi sem var á göngu við vatnið á laugardaginn kom auga á þúst sem honum þótti minna á mannslíkama marrandi í hálfu kafi skammt frá landi. Honum tókst að draga þústina á land og var þá ekki lengur í vafa um hvers kyns var og hringdi í lögregluna.

Hafa legið í dvala í mörg ár

Holden-vatnið er uppistöðulón fyrir raforkuframleiðslu og afrennsli þess því stíflað. Leif Gundersen hjá lögreglunni í Þrændalögum segir í samtali við dagblaðið VG að unnið hafi verið að viðgerðum á stíflunni og vatnið því verið tæmt að miklu leyti á meðan sem hafi getað orðið til þess að hreyfing kom á líkið sem svo hafi flotið upp.

Bíður lögreglunnar nú það verkefni að fá úr því skorið hvort líkið í vatninu sé af öðrum hvorum mannanna sem saknað hefur verið frá því á síðustu öld, annars vegar í 22 ár og hins vegar í 39.

Árið 1998 var málakerfi lögreglunnar orðið rafrænt og því auðvelt að finna gögnin í yngra málinu. Málsskjölin frá 1981 liggja hins vegar í skjalageymslu lögreglunnar í Þrándheimi flestum gleymd, enda stór hluti lögregluliðsins líklega ófæddur þegar rjúpnaskyttan hvarf, árið sem Íslendingar tóku upp nýja seðla og mynt og kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Útlaginn, var frumsýnd.

„Þessi mál hafa legið í dvala í mörg ár. Þegar mannshvarfsmál koma upp er unnið sleitulaust í byrjun en þegar frá líður dofnar áherslan,“ segir Gundersen. Stundum finnist fólk jafnvel eftir mánuð, en aldrei hafi hann komið að máli þar sem einhver kemur fram eftir áratugi.

Lögreglan heimsótti ættingja mannanna tveggja í gær og tók hjá þeim lífsýni. Krufning líkamsleifanna fór fram í dag og á morgun verða sýnin send til Óslóar til samanburðar sem líklega mun taka nokkra daga.

Lögreglan í Þrændalögum vonast til að hafa svör á reiðum höndum í næstu viku við því hvort annað málanna gömlu sé leyst, rjúpnaskyttu í leit að bráð sinni fyrir tæpum 40 árum eða fjölskylduföðurins sem síðast spurðist til árið 1998.

VG

Dagbladet

Trønder-Avisa (greindi fyrst frá málinu en rekur læsta síðu)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert