SOS-merki kom þeim til bjargar

AFP

Þremur sjómönnum frá Míkrónesíu, sem voru strandarglópar á pínulítilli afskekktri eyju í Kyrrahafi, var bjargað á sunnudag eftir að áhafnir bandarískra og ástralskra herþota sáu risastórt neyðarmerki, SOS, á ströndinni. 

AFP

Ástralskir hermenn fundu þremenningana á Pikelot-eyju sem er í 190 km fjarlægð frá þeim stað er þeir hófu siglinguna þremur dögum fyrr. Þá hafði rekið af leið og auk þess orðið eldsneytislausir á sjö metra langri bátskænu á milli tveggja eyja í Míkrónesíu-eyjaklasanum.

Áhöfn þyrlu flaug til eyjarinnar með vistir til þeirra í gær og voru þeir allir við góða heilsu. Herskip sótti þá síðan og sigldi með þá til síns heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert