Fjöldauppsagnir fyrirhugaðar á Kastrup

Uppsagnirnar koma í kjölfar fækkunar á flugfarþegum vegna kórónuveirunnar.
Uppsagnirnar koma í kjölfar fækkunar á flugfarþegum vegna kórónuveirunnar. AFP

Yfirstjórn Kastrup-flugvallar í Kaupmannahöfn segir að komi til greina að segja upp fjórðungi alls starfsliðs flugvallarins. Uppsagnirnar koma í kjölfar fækkunar flugfarþega vegna kórónuveirunnar.

„Það er virkilega sorglegt að færri koma til með að starfa á vellinum,“ segir framkvæmdastjóri flugvallarins, Thomas Woldbye, í tilkynningu. „Markmið okkar á meðan þessi krísa stendur yfir hefur verið að viðhalda eins mikilli starfsemi á vellinum og hægt er, samhliða því að vernda störf.“

Nú er útlit fyrir að um 650 manns úr starfsliði Kastrup-flugvallar verði sagt upp, en stjórn flugvallarins segist ætla að vinna með dönskum stéttarfélögum til þess að ákvarða nákvæmlega hve margir missa vinnuna. Kastrup-flugvöllur var rekinn með um 31 milljónar evru tapi á fyrri helmingi þessa árs og búist er við enn harðari skelli á síðari hluta ársins. 31 milljón evra eru tæpir fimm milljarðar íslenskra króna.

Framkvæmdastjórn flugvallarins í Frankfurt, Fraport, tilkynnti á mánudag að á bilinu 3.000 til 4.000 manns kæmu til með að missa vinnuna þar, eða um 15% allra starfsmanna á vellinum. Sömuleiðis tilkynnti Swissport, einn fremsti þjónustuaðili flugvalla um heim allan, að um 4.000 manns myndu missa vinnuna á þeim flugvöllum sem fyrirtækið þjónustar í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert