Gervihnattamyndir sýna risagíg í höfninni

Höfnin í Beirút fyrir og eftir sprenginguna. Sprengingin varð innan …
Höfnin í Beirút fyrir og eftir sprenginguna. Sprengingin varð innan rauða hringsins. Gígur myndaðist og húsnæði á hafnarsvæðinu jöfnuðust mörg við jörðu. Samsett mynd

Risastór gígur myndaðist í höfninni í Beirút í Líbanon við tvær sprengingar sem urðu þar í gær. Birtar hafa verið gervihnattamyndir af svæðinu fyrir og eftir sprengingarnar og má þar bæði sjá gíginn sem og þá gríðarlegu miklu eyðileggingu sem varð á nærliggjandi byggingum sem margar hverjar eru rústir einar.

Staðfest hefur verið að á annað hundrað séu látnir eftir sprenginguna og á fimmta þúsund slasaðir. Þá eru allt að 300 þúsund íbúar borgarinnar heimilislausir.

Loftmynd af svæðinu þar sem sprengingin varð, en það er …
Loftmynd af svæðinu þar sem sprengingin varð, en það er rústir einar eins og sjá má. Gíginn sem myndaðist við sprenginguna má sjá fyrir miðri mynd. AFP

Óljóst er enn hvaða áhrif þetta mun hafa á innflutning á matvælum og annarri nauðsynjavöru, en meirihluti matvæla í landinu er innfluttur og er höfnin í Beirút stærsta höfn landsins. Þá eyðilögðust síló sem höfðu að geyma 80-85% af kornbirgðum landsins í sprengingunum.

Hefur viðskiptaráðherra landsins sagt að til sé nóg af korni fyrir næstu misseri, en aðrir hafa lýst yfir miklum áhyggjum af matvælastöðu landins. Þannig hefur Ahmad Hoteit, forseti félags matvælaframleiðanda í Líbanon, lýst því yfir að minni innflutningur á matvöru gæti haft slæmar afleiðingar fyrir almenning í landinu, en þegar í byrjun þessa árs átti um helmingur landsmanna í Líbanon í vandræðum með að kaupa mat og aðra nauðsynjavöru vegna versnandi efnahagsstöðu.

Risastórar korngeymslur voru á hafnarsvæðinu þar sem um 85% af …
Risastórar korngeymslur voru á hafnarsvæðinu þar sem um 85% af kornbirgðum landsins voru geymdar. Þær eru rústir einar eftir sprenginguna. AFP



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert