Hlekkjaður við rúmið í Xinjiang

Ghappar er úígúr-múslimi og er myndskeiðið sjaldséð sjón inn í …
Ghappar er úígúr-múslimi og er myndskeiðið sjaldséð sjón inn í eina af búðum yfirvalda í Xinjiang, þar sem milljónum úígúra og annarra minnihlutahópa er haldið gegn vilja sínum AFP

Fyrirsætan Merdan Ghappar er ekki óvön því að vera fyrir framan myndavélina. Myndbandið sem hann sendi fjölskyldu sinni úr fangabúðum kínverskra yfirvalda í Xinjiang var hins vegar ólíkt þeim aðstæðum sem hann var vanur að vera myndaður í.

Á myndskeiðinu, sem fjölskyldan afhenti fréttastofu BBC ásamt nokkrum smáskilaboðum, má sjá hvar Ghappar situr hlekkjaður við rúm í annars tómu herbergi.

Ghappar er úígúr-múslimi og er myndskeiðið sjaldséð sjón inn í eina af búðum yfirvalda í Xinjiang, þar sem milljónum úígúra og annarra minnihlutahópa er haldið gegn vilja sínum í því sem kínversk stjórnvöld kalla lærdómsbúðir.

Annað sem sjá má í myndskeiðinu eru bólgnir ökklar Ghappar og skítug föt hans, auk þess sem heyra má í hátalarakerfi upplestur á sögu Xinjiang.

Samkvæmt umfjöllun BBC dregur myndskeiðið, auk smáskilaboðanna, sem þó er nánast ógerningur að sannreyna, ógnvekjandi mynd af veruleika úígúra og annarra minnihlutahópa í fangabúðum kínverskra stjórnvalda í Xinjiang.

mbl.is