Ítalir hóta Ryanair

Flugvélar Ryanair.
Flugvélar Ryanair. AFP

Samgönguyfirvöld á Ítalíu hótuðu því í dag að banna írska lággjaldaflugfélaginu Ryanair að fljúga til landsins vegna meintrar tregðu til að fara eftir sóttvarnarreglum. Forsvarsmenn flugfélagsins neita þessum ásökunum.

Í tilkynningu frá samgönguyfirvöldum segir að flugfélagið hafi ítrekað brotið á sóttvarnareglum sem yrði að fylgja til að vernda heilsu farþega. 

Haldi Ryanair áfram að brjóta gegn sóttvarnareglum verði öll flug félagsins til Ítalíu bönnuð, segir enn fremur í tilkynningunni.

Forsvarsmenn flugfélagsins segja yfirlýsingu ítalskra samgönguyfirvalda fjarri sannleikanum.

Flugfélagið fullyrðir að það fylgi öllum sóttvarnareglum, bæði í flugvélum sínum og á flugvöllum, og nefnir í því samhengi að samgangi áhafna og farþega sé haldið í lágmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert