Of snemmt að segja til um í hverju aðstoð fælist

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Of snemmt er að segja til um í hverju aðstoð Íslendinga við Líbanon í kjölfar tveggja stórra sprenginga á hafnarsvæði Beirút gæti falist að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Engir Íslendingar hafa óskað eftir aðstoð eða haft samband við borgaraþjónustuna í kjölfar sprenginganna. 

Fleiri en hundrað eru látnir og fjölda er enn saknað eftir sprengingarnar í gær. Þá eru allt að 300 þúsund íbúar Beirút heimilislausir. 

Á fimmta þúsund slösuðust alvarlega í sprengingunum í gær.
Á fimmta þúsund slösuðust alvarlega í sprengingunum í gær. AFP

Guðlaugur Þór sagði í gær að Íslendingar séu reiðubúnir að aðstoða við hjálparstarf í Líbanon.

Í samtali við mbl.is segir Guðlaugur að slík aðstoð færi líklega fram á grundvelli alþjóðasamstarfs. 

„Það er of snemmt að segja til um það. Ef að slíkt kemur upp verður það að öllum líkindum gert í gegnum samstarfssamninga sem við eigum aðild að en núna er bara verið að skoða hvar fjárþörfin er mest og hvernig framlagið getur nýst sem best. Það er gert á grundvelli samstarfsstofnana Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnanna sem við störfum með. Aðalatriðið er að við erum tilbúin að leggja okkar af mörkum til stuðnings líbönsku þjóðinni,“ segir Guðlaugur. 

Nú stendur yfir fundur ríkisstjórnarinnar og segir Guðlaugur það líklegt að ástandið í Líbanon verði rætt óformlega. 

Samkvæmt Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er ekki vitað til þess að nokkrir Íslendingar séu í Beirút. „Það hefur enginn haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og við höfum ekki spurnir af neinum Íslendingum í Líbanon. Í þeim gagnagrunni sem borgaraþjónustan hefur bendir ekkert til að nokkrir Íslendingar séu í landinu,“ segir Sveinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert