Sprengiefnið í vöruskemmu eftir gjaldþrot

AFP

Hafnarstjórar í Beirút í Líbanon hafa verið settir í stofufangelsi eftir að tvær stórar sprengingar urðu í borginni síðdegis í gær. Að minnsta kosti 135 létust og meira en 4.000 slösuðust.

Sprengiefnið, um 2.700 tonn af ammóníum-nítrati, hafði verið í vöruskemmu við höfnina frá árinu 2013 eftir gjaldþrot útgerðar. 

AFP

Yfirmaður líbanska tollstjóraembættisins, Badri Daher, sagði að hans menn hefðu óskað eftir því að efnið yrði fjarlægt, án árangurs. Hann sagði að efnið hefði ekki átt að vera þarna og hefði í raun aldrei átt að vera komið fyrir þar sem það var.

Ammóníum-nítrat er notað í landbúnaði en er sprengifimt og því oft notað af misindismönnum til sprengjugerðar.

Michel Aoun, forseti landsins, hefur lýst yfir tveggja vikna neyðarástandi og þriggja daga þjóðarsorg. 

mbl.is