„Veit ekki hvað er hægt að leggja á eina þjóð“

Eyðileggingin er algjör á hafnarsvæðinu. Sílóin sem geymdu kornbirgðir Líbanon …
Eyðileggingin er algjör á hafnarsvæðinu. Sílóin sem geymdu kornbirgðir Líbanon standa þarna fyrir miðri mynd, en kornið er allt talið ónýtt. AFP

Sprengingin sem varð við höfnina í Beirút í Líbanon í gær er enn eitt stóráfallið sem ríður yfir Líbanon á síðustu misserum og árum. Óljóst er hverjar afleiðingarnar verða nákvæmlega og þó að þjóðin sé að einhverju leyti komin með meistaragráðu í að rísa upp aftur eftir hvert höggið á fætur öðru gætu afleiðingarnar í þetta skiptið orðið langvinnari en marga órar fyrir.

„Ég veit ekki hvað er hægt að leggja á eina þjóð, hvað er hægt að búa til mikinn harmleik,“ segir Alma Hannesdóttir í samtali við mbl.is, en hún hefur í tvígang búið í Beirút og er eiginmaður hennar þaðan. Strax og sprengingin reið yfir hafa þau verið í samskiptum við fjölda vina og ættingja í Beirút og segir Alma að þótt skemmdir séu hjá mörgum virðist svo vera sem flestir sem eru þeim nákomnir hafi sloppið nokkuð vel. Þó hafi einn frændi eiginmannsins slasast nokkuð og erfitt sé að fá nákvæmar upplýsingar um líðan hans þar sem öll sjúkrahús séu yfirfull í borginni.

Fréttir frá Líbanon rata ekki reglulega á síður íslenskra fjölmiðla, en undanfarin ár hafa slíkar fréttir oftast verið tengdar flóttamannamálum vegna stríðsins í Sýrlandi eða pólitískum og efnahagslegum óstöðugleika. Í gær bættist svo þessi risasprenging við, en þegar þetta er skrifað er ljóst að á annað hundrað eru látnir og yfir fjögur þúsund slasaðir. Þá er ljóst að eignartjón er gríðarlegt, ekki bara á hafnarsvæðinu, þar sem segja má að altjón hafi orðið, heldur víða um borgina, enda var höggbylgjan sem fylgdi stærri sprengingunni það mikil að hún fannst á Kýpur í tæplega 200 km fjarlægð, húsnæði skemmdist í nálægum hverfum og rúður brotnuðu í margra km fjarlægð.

Alma, Claude, eiginmaður hennar, og dæturnar tvær á góðri stund …
Alma, Claude, eiginmaður hennar, og dæturnar tvær á góðri stund í Beirút. Ljósmynd/Alma Hannesdóttir

Tvö borgarastríð á síðustu 45 árum

Alma segir að erfitt sé að lýsa því fyrir þeim sem ekki þekkja til hvernig kerfið virki, eða virki ekki, í Líbanon. Landið er staðsett við Miðjarðarhafið með landamæri að Sýrlandi og Ísrael og státar af mikilli og langri sögu. Þrátt fyrir að þjóðin standi saman sem Líbanar, þá skiptist hún upp eftir trúarbrögðum og pólitík og hefur það áhrif á daglegt líf alls almennings. Landið hefur tvívegis farið í gegnum borgarastyrjöld á síðustu 45 árum, en sú fyrri stóð yfir í 15 ár frá 1975 til 1990, en sú síðari var árið 2006.

Fyrir fyrra borgararstríðið var Líbanon vinsæll ferðamannastaður og var Beirút meðal annars þekkt sem París Mið-Austurlanda. Eftir stríðið hófst uppbygging að nýju og þó að margt hafi áorkast mátti enn sjá ummerki beggja stríðanna. Þá gefur skipulag borgarinnar innsýn inn í ákveðið óskipulag sem hefur viðgengist og það hvernig spilling hefur haft yfirhöndina umfram heildarsýn og -hagsmuni borgarbúa.

Flúðu bæði stríð í Líbanon og hrun á Íslandi

Alma flutti til Líbanon árið 2004 til að vinna á hóteli, en á þeim tíma segir hún að ástandið hafi verið mjög gott og hún heillaðist mjög af landi og þjóð. Kynntist hún meðal annars eiginmanni sínum á þeim tíma. Árið 2006 hafi hins vegar skollið á stríð og hafi þau komist til Íslands með því að fara í gegnum Sýrland. Ákváðu þau að setjast hér að, en eftir fjármálahrunið 2008 flúðu þau í annað sinn, nú aftur til Líbanon, sem var í hraðri enduruppbyggingu. „Það leit út fyrir að vera betra líf þá. Við vorum ung með 2 börn,“ segir Alma og bætir við að þegar hún lítur í baksýnisspegilinn hefði hún líklega ekki tekið þá ákvörðun aftur. Þau hafi svo flutt til Íslands aftur árið 2014 og voru áhrif af stríðinu í Sýrlandi þá ástæðan.

„Ekkert virkar eins og okkur þykir eðlilegt

„Þetta er rosalega brothætt þjóð,“ segir Alma og bætir við að fyrir fólk á Íslandi sé ekkert í Líbanon eins og það eigi að vera hér heima. „Ekkert virkar eins og okkur þykir eðlilegt í okkar heimshluta,“ segir hún. Vísar hún þá meðal annars til þess að ekki sé til staðar neitt almannatryggingakerfi, heldur sé eina bakland fólks nánasta fjölskylda og vinir. Þá komi peningar fólki áfram þarna vegna spillingar í stað þess að fólk geti komist áfram á eigin verðleikum. Spilling sé landlæg og ríkið máttlaust vegna fjárskorts, meðal annars vegna þess að skattheimta sé í skötulíki og allir reyni að komast hjá því að greiða skatta. Þetta leiði allt til þess að traust á stjórnmálum og valdhöfum sé lítið sem ekkert og spillingarmál í efri lögum samfélagsins hafi heldur ekki hjálpað til, enda dansi limirnir eftir höfðinu.

Lífið getur verið notalegt í Beirút, en því miður hafa …
Lífið getur verið notalegt í Beirút, en því miður hafa áföllin undanfarna áratugi verið stór. Ljósmynd/Alma Hannesdóttir

Alma segir að meðan þau bjuggu úti hafi hún horft upp á vini sína í endalausu veseni með það sem alla jafna eru taldir hversdagslegir hlutir hér á landi. „Ef þú átt pening gengur allt upp, en ef þú átt ekki pening er þetta endalaust ströggl,“ segir hún. Þannig megi nánast ekkert gerast hjá þeim sem hafi lítið bakland. Með skaddaðan efnahag landsins og mikið atvinnuleysi, sem standi nú í um 35%, eigi margir erfitt með að kaupa rafmagn eða olíu til að hita íbúðir sínar. Þá hafi fáir ráð á því að veikjast alvarlega.

Djúpstæð vandamál í stjórnkerfinu

Stjórnmálakerfið í Líbanon er sér kapítuli út af fyrir sig, en í stuttu máli er bundið í stjórnarskrá að mismunandi trúarhópar gegni mismunandi stöðum efst í valdakerfinu. Meðal stjórnmálaflokka í landinu eru samtökin Hezbollah sem víða eru flokkuð sem hryðjuverkasamtök. Vegna íbúaþróunar undanfarið hafa komið upp kröfur um að breyta valdahlutföllum og hafa mismunandi hópar tekist hart á. Í landinu eru einnig á bilinu 170 til 270 þúsund flóttamenn frá Palestínu sem eru ríkisfangslausir. Þá er talið að flóttamenn vegna stríðsins í Sýrlandi séu um ein milljón í landinu, en skráðir íbúar Líbanon eru ekki nema 4,5 milljónir.

Vandamál stjórnvalda við að stýra landinu komu hvað bersýnilegast í ljós árið 2015, en þá var ruslahaugum sem tóku við rusli frá Beirút og nágrenni lokað án þess að nýr urðunarstaður væri til staðar. Leiddi það til þess að hætt var að sækja rusl í borginni og rusl hlóðst upp. Steig ungt fólk þá fram og mótmælti vanmætti ríkisstjórnarinnar, spillingu, vatns- og rafmagnsskorti og fleiri samfélagsmálum.

Á tíma starfaði Alma í skóla í Beirút. Þessi mynd …
Á tíma starfaði Alma í skóla í Beirút. Þessi mynd er tekin af skrifstofu í skólanum eftir sprengingarnar, en það tekur um 15 mínútur að keyra frá skólanum að upptökum sprengingarinnar og um hálftíma í umferð.

Skuldir hækkað og landsframleiðsla lækkað

Skuldir ríkisins hafa vaxið mikið frá því 2009 og á sama tíma hefur landsframleiðsla á hvern íbúa lækkað. Í fyrra ætlaði ríkisstjórnin að fara í umfangsmiklar breytingar á skattakerfinu, en það leiddi til óánægjubylgju sem varð að fjölmennum mótmælum frá október til loka ársins. Á þessum tíma var bönkum meðal annars lokað og þegar þeir opnuðu voru settar á strangar reglur um úttekir og gjaldeyrisviðskipti.

Á sama tíma og Covid-tilfellum fjölgar ört

Þegar leið á þetta ár fóru fyrstu kórónuveirutilfellin að koma upp í Líbanon, líkt og víðar um heim. Til að byrja með voru tilfellin tiltölulega fá, en fór svo að fjölga í lok júní og í júlí tóku þau stökk. Eins og víðar hefur þetta mikil áhrif á ferðaþjónustuna, en það var mjög stór geiri í Líbanon, ekki síst vegna þess að landið var eitt það frjálslyndasta í Mið-Austurlöndunum og lýsir Alma því þannig að þangað hafi fólk víða frá arabalöndum komið til að skemmta sér, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort það væri illa séð að drekka áfengi eða ekki.

Kreppur og áföll ofan á fyrri kreppur og áföll

Sprengingin núna, með tilheyrandi efnahagslegum áhrifum, kemur því ofan í efnahags- og heilbrigðiskreppu vegna kórónuveirunnar, sem kom ofan í efnahags- og stjórnmálakreppu áranna á undan, sem kemur ofan í áralöng pólitísk og trúarleg átök innanlands jafnt sem erlendis sem komu meðal annars fram í tveimur borgarastríðum á undanförnum áratugum.

Alma segir að vegna efnahagsástandsins undanfarið hafi margir misst vinnuna. Réttindi vinnandi fólks séu takmörkuð í Líbanon og því geti atvinnurekandi strax sett fólk í launalaust leyfi frá störfum. Fólk sem hafi átt sparifé hafi gengið á það síðustu mánuði eða stuðst við fjölskyldu eða vini.

Nauðsynjavara hafði áður hækkað mikið í verði

Eftir mótmælin í vetur, þar sem bankarnir lokuðu og líbanska líran hrundi í verði, hækkaði verð á matvælum og öðrum nauðsynjavörum mikið. Alma segir að lífsgæði fólks hafi minnkað mikið og flestir hafi þurft að skera niður það sem flokkaðist undir lúxus. Segir hún að eldri kynslóðin sé að stórum hluta orðin samdauna stórum áföllum, stríðum, skotbardögum og erfiðu ástandi. „Hún er orðin vön engu,“ segir Alma. Það sama eigi þó ekki við yngri kynslóðina sem hafi stigið upp á undanförnum misserum og kallað eftir ríkisstjórn sem geti sýnt að hún geti tekið utan um þjóðina.

Gríðarleg eyðilegging við höfnina í Beirút.
Gríðarleg eyðilegging við höfnina í Beirút. AFP

Hversu mörg áföll í viðbót?

Ofan í öll þessi mótmæli, vantraust á stjórnvöld og erfiða efnahagslega stöðu hafi svo sprengingin komið í gær. „Borgin er í rúst,“ segir Alma, en höfnin er ekki langt frá gamla miðbænum sem var byggður upp í kringum síðustu aldamót eftir fyrra borgarastríðið og fjölmennum íbúðahverfum sem eru meðal þeirra hverfa þar sem mest líf og fjör er alla jafna og mikið um háskólanemendur. „Fólk er alveg búið að fá nóg, hvað er næst?“ spyr Alma og segist ekki skilja hvað líbanska þjóðin þurfi að upplifa mörg áföll til viðbótar.

„Það situr enginn á neinum peningum“

Alma segir að ekki sé hægt að líkja þessari sprengingu við neitt annað sem hafi gerst í landinu og að hún telji að áhrifin verði langvinnari en áður, sérstaklega í ljósi undirliggjandi aðstæðna. Segir hún að tryggingar séu mjög takmarkaðar í Líbanon og þá sé enginn tryggður fyrir sprengingum. Það geri því alla uppbyggingu erfiða að hvorki einstaklingar né ríkið eigi fjármuni til að fara í uppbyggingu. „Það situr enginn á neinum peningum,“ segir hún, en bætir þó við að fólk sé þegar farið að horfa til aðstoðar frá „góðum bræðrum“ í öðrum arabalöndum, sem hafi áður komið til aðstoðar.

Áhyggjur af matvælaöryggi eftir að korngeymslur eyðilögðust

Til viðbótar við þetta er orðið ljóst að sprengingarnar eyðilögðu birgðageymslur sem geymdu um 80-85% af kornbirgðum Líbanon. Alma segir að með höfnina ónýta sé óljóst hvernig takist til með innflutning á komandi misserum. Segir hún að franskir miðlar hafi meðal annars velt upp þeirri spurningu hvaða áhrif kornskortur gæti haft. Þannig sé uppistaðan af þeim mat sem sé borðaður í landinu úr brauði og sé kornið í það innflutt. „Ég veit ekki hvert þjóðin fer þegar svona basic hlutir eru í hættu,“ segir Alma. Hún er ekki ein um það, því fyrr í dag lýstu viðskiptaráðherra landsins og forseti matvælaframleiðenda í landinu yfir áhyggjum vegna stöðunnar.

Jafnaðist á við margra ára stríð

Alma bjó sjálf í Beirút þegar Rafic Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, var ráðinn af dögum í stórri bílsprengju í miðbænum. Alma segir að sú sprenging hafi aðeins verið lítil miðað við sprengingarnar í gær og þó að stjórnmálalegu áhrifin hafi verið mikil hafi eignartjónið þá verið takmarkað. Sprengingarnar í gær jafnist í raun á við margra ára stríð í borginni. Hún tekur þó fram að stríðin hafi verið um allt land, meðan sprengingarnar hafi verið staðbundnar. Hins vegar sé umfang þeirra slíkt að það jafnist á við eyðileggingu yfir langt tímabil.

Segist hún hafa heyrt í fjölda vina og ættingja mannsins síns í gær. Hún hafi fengið sendar myndir af heimilum, bæði nærri sprengingunni og líka fjær. „Það var allt eyðilagt.“ Framhaldið sé ekki bjart. „Það er sjóðandi heitt sumar núna, en svo kemur kaldur vetur.“ Telur hún ólíklegt að hægt verði að fara í miklar endurbætur fyrir veturinn, en samkvæmt yfirvöldum í Beirút er talið að allt að 300 þúsund manns séu heimilslausir vegna sprenginganna.

Með tengdafjölskyldunni í Beirút.
Með tengdafjölskyldunni í Beirút. Ljósmynd/Alma Hannesdóttir

Líbanar fljótir til baka eftir áföll, en hvað núna?

Hún ítrekar að Líbanar séu almennt fljótir að stökkva til baka eftir áföll, en áhrifin núna geti orðið langvinn. Þar spili inn í að reiði íbúa gagnvart stjórnvöldum sé þegar komin upp og muni líklega stigmagnast þegar fólk kemst yfir mesta sjokkið vegna sprengingarinnar. Segir Alma að hún hafi þegar séð hjá vinum sínum á samfélagsmiðlum kröfu um að ráðherrar segi af sér. „Hver leyfir það að geyma þetta efni þarna í þessi ár? Hver borgaði hverum?“ segir hún að fólk spyrji sig, en 2.750 tonn af amm­ón­íum-nítrati eru talin hafa verið geymd við óviðun­andi aðstæður í sex ár á svæðinu. Er það efni sem er notað í áburð, en er einnig hægt að nota í sprengjur.

„Hlutirnir hafa síðustu ár versnað og versnað. Fólk taldi að það gæti ekki versnað meira,“ segir Alma. „En svo gerðist þetta.“ Bætir hún við að þetta gæti orðið síðasta hálmstráið hjá fólki þegar komi að trausti á yfirvöld. „Puttarnir benda allir á ríkisstjórnina. Hvaða stjórn myndi leyfa svona sprengiefni að vera í 6 ár við höfnina við miðja miðborg þar sem milljónir manna eru?“

mbl.is