Facebook lokar á falska stuðningsmenn Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt ræðu um efnahagslega velsæld á Burke …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt ræðu um efnahagslega velsæld á Burke Lakefront flugvelli í Cleveland-borg í Ohio-ríki í dag. AFP

Samfélagsmiðillinn Facebook gaf það út í dag að hann hefði tekið úr umferð fjölda falskra aðganga sem styðja Donald Trump Bandaríkjaforseta. Um var að ræða skipulagða „herferð“ sem átti upptök sín í Rúmeníu en þeir sem stjórnuðu aðgöngunum þóttust vera Bandaríkjamenn sem studdu Trump í kosningabaráttunni sem nú stendur yfir.

35 Facebook-aðgöngum, þremur Facebook-síðum og 88 Instagram-aðgöngum var lokað í baráttunni gegn „villandi samstilltri hegðun“ samkvæmt Nathaniel Gleicher, yfirmanni öryggismála hjá Facebook.

„Fólkið á bakvið þetta netkerfi notaði falska aðganga til að þykjast vera Bandaríkjamenn, til að magna eigið efni og til að stýra síðum sem studdu Trump,“ sagði Gleicher.

Aðgangarnir settu inn færslur um forsetakosningarnar sem fara fram í nóvember, kosningaherferð Trump og íhaldssama og kristna hugmyndafræði. Eins og áður segir var aðgöngunum stýrt með að því er virðist skipulögðum hætti frá Rúmeníu.

mbl.is