Fái ekki að áfrýja nauðgunardómi

Madeilene McCann hvarf sporlaust af hótelherbergi fjölskyldunnar í Portúgal.
Madeilene McCann hvarf sporlaust af hótelherbergi fjölskyldunnar í Portúgal. AFP

Maðurinn sem grunaður er um að hafa rænt Madeleine McCann fær líklega ekki að áfrýja dómi sem hann hlaut í ótengdu máli þar sem hann var sakfelldur fyrir að hafa nauðgað bandarískri konu á áttræðisaldri árið 2005 á Praia da Luz í Portúgal, bænum þar sem McCann var í fríi með fjölskyldu sinni þegar hún hvarf sporlaust árið 2007.

Maðurinn, sem hefur verið nafngreindur Christian B., var framseldur frá Ítalíu til Þýskalands vegna fíkniefnasmygls og situr í fangelsi vegna þess.

Christian B. eftir handtökuna á Ítalíu.
Christian B. eftir handtökuna á Ítalíu. AFP

Christian var einnig dæmdur fyrir að hafa nauðgað konunni í Portúgal, en lögfræðingar hans hafa áfrýjað dómnum á þeim grundvelli að ekki hafi mátt dæma hann fyrir annan glæp en þann sem hann var framseldur fyrir, auk þess sem sá glæpur var framinn í Portúgal og því þyrfti að fá leyfi portúgalskra yfirvalda.

Fallist þýskir dómstólar á áfrýjunina og felli dóminn úr gildi losnar Christian úr fangelsi í janúar á næsta ári.

Þýskir dómstólar leituðu hins vegar álits Evrópudómsólsins, sem er ráðgefandi en ekki bindandi, og komst hann að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti samþykki portúgalskra yfirvalda fyrir sakfellingunni. Þá féllust ítölsk yfirvöld, sem upphaflega framseldu Christian til Þýskalands, á að mátt hafi sækja hann til saka vegna nauðgunarinnar.

Frétt BBC

mbl.is