Íbúar Beirút krefjast svara

Sprengingarnar ollu gríðarlegri eyðileggingu í höfuðborginni.
Sprengingarnar ollu gríðarlegri eyðileggingu í höfuðborginni. AFP

Íbúar Líbanons hafa margir lýst yfir óánægju sinni og reiði í garð ríkisstjórnar landsins í kjölfar gríðarlegrar sprengingar sem varð á þriðjudag. Hið minnsta 137 eru látnir, margra er saknað og um 300.000 hafa misst heimili sitt og eigur. 

Michel Aoun, forseti Líbanons, hefur sagt að um 2.700 tonn af ammóníum-nítrati hafi valdið sprengingunni, en efnið var geymt á ófullnægjandi hátt í vöruskemmu við höfnina í Beirút frá árinu 2013. 

Samkvæmt BBC hafa fjölmargir íbúar Líbanons sakað yfirvöld um spillingu, vanhirðu og óstjórn. 

„Beirút grætur, Beirút öskrar, fólk er í geðshræringu og fólk er þreytt,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Jude Chehab. 

Chadia Elmeouchi Noun, íbúi Beirút sem er nú á sjúkrahúsi, segir: „Ég hef vitað allan þennan tíma að við vorum undir stjórn vanhæfra leiðtoga, vanhæfrar ríkisstjórnar. En það sem þeir hafa gert núna er glæpsamlegt.“

Ríkisstjórn Líbanons tilkynnti í gær að nokkrir starfsmenn hafnaryfirvalda landsins hefðu verið settir í stofufangelsi í kjölfar sprengingarinnar á meðan málið verður rannsakað. 

mbl.is