Ísland áfram grænt

Norðmenn munu áfram geta ferðast til Íslands án þess að …
Norðmenn munu áfram geta ferðast til Íslands án þess að þeirra bíði tíu daga sótt­kví við heim­komu. Frakk­land, Sviss, Tékk­land og Mónakó verða hins veg­ar rauðmerkt frá miðnætti annað kvöld, föstu­dag. mbl.is/Arnþór

Norsk stjórnvöld hyggjast halda Íslandi í „græna hópnum“ þrátt fyrir að kórónuveirusmit í landinu séu komin upp fyrir viðmiðið 20 smitaðir á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikur, en Ísland var eitt sjö landa sem dagblaðið VG spáði fyrr í vikunni að færu á rauða listann og yrði þar með eitt þeirra landa sem kostar tíu daga sóttkví að heimsækja þegar snúið er aftur til Noregs.

Löndin sem verða rauð á kórónukorti norskra stjórnvalda á miðnætti annað kvöld eru Frakkland, Sviss, Tékkland og Mónakó. Auk þess verða breytingar á Svíþjóðarferðum í báðar áttir, lénin Skåne og Kronoberg fara aftur á rautt en græn verða Uppsala, Södermanland, Dalarna og Västerbotten.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu norska utanríkisráðuneytisins í dag. „Þessi þróun slær því föstu sem hefur verið boðskapur ríkisstjórnarinnar allan tímann, smitástand og staðbundnar tálmanir geta breyst mjög hratt,“ sagði Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra í dag og bætti því við að öllum, sem hygðust ferðast til útlanda, bæri skylda til að hugsa málið ítarlega og kynna sér ástandið á áfangastaðnum.

Íslendingar hafi tögl og hagldir

Espen Nakstad, aðstoðarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Noregs, Helsedirektoratet, og læknir, lögfræðingur og rithöfundur ofan í kaupið, segir lítið koma á óvart að Ísland hafi ekki farið á rauða listann. „Ísland er lítið land, þar búa á milli þrjú og fjögur hundruð þúsund manns. Þar með þarf ekki meira en 40 til 60 kórónutilfelli þar á tveggja vikna tímabili til að fara yfir mörkin. Í slíkum tilfellum verður að sýna skilning, þar [á Íslandi] er stjórn á ástandinu,“ sagði Nakstad við norska ríkisútvarpið NRK í dag.

Hann sagði norsk yfirvöld skoða aðstæður í hverju landi fyrir sig og einmitt hvernig gengi að hafa stjórn á ástandinu. Þannig hafi Holland (22,1 smit á 100.000) og Pólland (20,1) líka sloppið fyrir horn, að minnsta kosti í bili.

„Eins gæti verið óvitlaust að nota fleiri liti en rautt og grænt til að lýsa ástandinu í hverju landi, bæta til dæmis við gulum sem táknaði þá að tekin væri áhætta með því að ferðast til viðkomandi lands,“ sagði aðstoðarforstjórinn enn fremur.

Erna Solberg vonsvikin

Töluvert hefur syrt í álinn hjá Norðmönnum sjálfum síðustu vikur, tvö stór hópsmit komið upp, annað um borð í farþegaskipi Hurtigruten, sem mbl.is og Morgunblaðið hafa fjallað ítarlega um, og hitt í Moss, um 60 kílómetra sunnan við Ósló, þar sem 133 eru nú smitaðir í kjölfar brúðkaupsveislu fyrir um hálfum mánuði auk þess sem þar lést vistmaður á umönnunarheimili en þrír starfsmenn þar höfðu þá smitast og var allt starfsfólkið á tímabili í sóttkví.

Erna Solberg forsætisráðherra, sem kom úr sumarfríi í dag, segist vonsvikin yfir árangrinum síðustu vikur og útilokar ekki að norsk stjórnvöld láti sverfa til stáls á næstu vikum og herði takið á ný, til dæmis með grímuskyldu í öllum almenningssamgöngutækjum á annatímum og fleiri hugsanlegum ráðstöfunum.

Bent Høie heilbrigðisráðherra sagði í útvarpsfréttatíma NRK í kvöld að allt kapp yrði lagt á að skólar gætu starfað eðlilega þegar þeir hefjast á ný um miðjan mánuðinn, ekki kæmi til greina að loka leik- og grunnskólum vegna veirunnar auk þess sem börn og ungmenni ættu að geta stundað íþróttir og fengið sína hreyfingu án þess að sóttvarnareglur yrðu þar þrándur í götu.

NRK

NRKII

VG

Adresseavisen

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert