Loka á vatn og rafmagn partíhúsa

Teiti eru illa séð í Los Angeles þessa dagana. Myndin …
Teiti eru illa séð í Los Angeles þessa dagana. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Borgarstjóri Los Angeles segir að borgin muni á morgun fá heimild til að loka á vatn og rafmagn bygginga þar sem stórar veislur og samkomur eru haldnar þrátt fyrir þær takmarkanir sem eru í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. BBC greinir frá.

Borgarstjórinn, Eric Garcetti, segir að partí hafi á skömmum tíma breyst í næturklúbba og að nú væri sett í forgang að takmarka samkomur sem almenningi stafaði veruleg hætta af. 

Los Angeles er í Kaliforníufylki sem hefur orðið illa úti í faraldrinum. Flest smit veirunnar í Bandaríkjunum hafa komið upp í Kaliforníu en 532.000 hafa smitast af veirunni þar og hafa tæplega 10.000 fallið frá í Kaliforníu vegna veirunnar.

Partí spruttu upp í kjölfar lokana

Í síðasta mánuði fyrirskipaði Gavin Newsom, fylkisstjóri Kaliforníu, að veitingastöðum, skemmtistöðum og börum yrði tafarlaust lokað. Í kjölfarið hafa yfirvöld í Los Angeles tekið eftir því að partíum í heimahúsum hafi fjölgað verulega. Fyrr í þessari viku var kona skotin til bana í teiti í Beverly Crest hverfi í Los Angeles. Um 200 manns voru í því partíi. 

„Afleiðingar þessara stóru partía ná langt út fyrir teitin sjálf,“ sagði Garcetti við fréttamenn í dag. „Þau hafa áhrif á samfélagið allt vegna þess að veiran getur breiðst út fljótt og auðveldlega.“

Bandaríkin glíma enn við flest kórónuveirusmit heimsins með yfir 4,8 milljónir staðfestra tilvika og að minnsta kosti 159.433 dauðsföll. 

mbl.is