16 látnir eftir að flugvél rann út af flugbraut

Ljósmynd/Skjáskot

Að minnsta kosti 16 eru látnir og 15 alvarlega slasaðir eftir að flugvél Air India Express með tæplega 200 farþegum um borð rann út af flugbraut við lendingu á Karipur-flugvellinum í Kozhikode-borg í Kerala-héraði á Indlandi. Annar flugmaðurinn er sagður vera meðal þeirra sem létu lífið.

„Ég get staðfest að það eru alls 14 látnir. Aðrir 15 eru alvarlega slasaðir en ástandið er síbreytilegt. Mér skilst að allir þeir sem lifðu af séu slasaðir á einhvern hátt,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Kerala.

174 farþegar voru um borð, þar af tíu börn, tveir flugmenn og fimm manna áhöfn. Flugið var hluti af átaki stjórnvalda sem snýst um að koma Indverjum, sem hafa verið strandaglópar vegna kórónuveirufaraldursins, aftur heim.

Flugvélin var að koma frá Dubai og úrhellisrigning var þegar slysið átti sér stað. Flugvélin er mjög mikið skemmd og fór í sundur.

Þá greina sumir miðlar frá því að slysið megi rekja til þess að lendingarbúnaður vélarinnar hafi verið bilaður en það hefur ekki verið staðfest.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:04.



Vélin fór í sundur.
Vélin fór í sundur. Ljósmynd/Twitter
Ljósmynd/Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert