Greindist neikvæður eftir að hafa greinst jákvæður

Mike DeWine, ríkisstjóri Ohio, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Svo fór …
Mike DeWine, ríkisstjóri Ohio, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Svo fór ekki að flokksbræðurnir gátu hist í gær. AFP

Mike DeWine, ríkisstjóri Ohio, greindist neikvæður í kórónuveiruprófi aðeins nokkrum klukkustundum eftir að annað próf hafði sýnt fram á að hann væri með veiruna. Niðurstöður fyrra prófsins komu í veg fyrir að hann gæti boðið forsetann Donald Trump velkominn í Ohio í gær og sömuleiðis sótt með honum fjöldafund.

Ríkisstjórinn gekkst fyrst undir mótefnapróf, sem getur gefið niðurstöður eftir einungis nokkrar mínútur, en hefur að sama skapi reynst ónákvæmara en hefðbundin próf. DeWine sagði niðurstöður þess hafa komið sér á óvart, enda hefði hann ekki kennt sér neins meins utan lítilsháttar höfuðverks.

Síðar í gær var hann prófaður með svokölluðu PCR-prófi, þar sem vinna þarf niðurstöðurnar á rannsóknarstofu, og reyndist þá ekki smitaður.

Trump hélt fjöldafund í verksmiðju raftækjaframleiðandans Whirlpool í Ohio í …
Trump hélt fjöldafund í verksmiðju raftækjaframleiðandans Whirlpool í Ohio í gær. AFP

Hafði keyrt frá Columbus til Cleveland

Seinni niðurstöðurnar kórónuðu langan dag fyrir DeWine, sem er 73 ára, en hann hafði byrjað daginn á að keyra í þrjá klukkutíma norður frá höfuðborginni Columbus og til fundar við forsetann í Cleveland. Að þeim akstri loknum gekkst hann undir fyrra prófið, reglum samkvæmt sökum fyrirhugaðrar nálægðar við þjóðhöfðingjann.

Eftir að niðurstöður þess prófs urðu ljósar stóð forsetinn einn á flugvellinum í Cleveland, fyrir framan þyrluna sem flutti hann þangað, og sagði DeWine mjög góðan vin sinn. Á sama tíma var þessi góði vinur forsetans á leiðinni í einangrun á heimili sínu.

Í leiðinni nýtti Trump tækifærið og hnýtti í tilvonandi mótframbjóðanda sinn í forsetakosningunum, varaforsetann fyrrverandi Joe Biden.

„Wine with DeWine“

Niðurstöðurnar sem DeWine fékk í fyrra prófinu, aðeins nokkrum mínútum eftir að hafa gengist undir það, eru þvert á reynslu fjölda Bandaríkjamanna sem þurft hafa að bíða klukkustundum saman í röð eftir prófi og svo í kjölfarið beðið í marga daga eða jafnvel vikur eftir niðurstöðum.

DeWine býr að áratugareynslu af störfum fyrir hið opinbera, sem saksóknari í sýslu, öldungadeildarþingmaður á Ohio-þingi, þingmaður í fulltrúadeildinni í Washington, aðstoðarríkisstjóri, öldungadeildarþingmaður í Washington og nú síðast var hann ríkissaksóknari Ohio áður en hann tók við embætti ríkisstjóra á síðasta ári.

Þrátt fyrir þennan feril hefur lítið farið fyrir DeWine, það er áður en faraldurinn varð til þess að varpa kastljósinu á hann. Ríkisstjórinn, sem er repúblikani, hefur á stundum farið þvert á viðtekna stefnu í flokknum, og var til að mynda fyrsti ríkisstjórinn til að aflýsa öllu skólahaldi. Þar að auki fyrirskipaði hann íbúum ríkisins að halda sig heima strax í marsmánuði.

Daglegir blaðamannafundir hans, sem hefjast á slaginu klukkan tvö, þykja þá hafa slegið í gegn. Ganga þeir undir heitinu „Wine with DeWine“ og búnir hafa verið til stuttermabolir og vínglös með áletrunum sem vísa í fundina, samkvæmt umfjöllun New York Times.

mbl.is