Milljónir dollara í snekkjur og einkaþotur

AFP

New York-ríki ákærði í gær Samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum, NRA, og framkvæmdastjóra þeirra Wayne LaPierre fyrir fjármálamisferli, en ríkissaksóknari New York vonast til þess að samtökin verði leyst upp. 

Ríkissaksóknarinn Letitia James segir LaPierre og þrjá aðra hátt setta starfsmenn samtakanna hafa nýtt félagsgjöld og framlög félagsmanna í eigin þágu og þágu vildarvina, en James segir framferði þeirra brjóta gegn lögum um samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. 

James segir að mennirnir fjórir hafi „svo gott sem stolið eigum samtakanna“ sem höfðu á tíðum yfir töluverðum fjármunum að ráða en er nú nærri gjaldþroti. Samtökin hafa í gegnum tíðina dælt umtalsverðum fjárhæðum til Repúblikanaflokksins. 

Í yfirlýsingu frá NRA segir að James sé með ákærunni að reyna „að skora pólitísk stig“ svo nærri forsetakosningum sem fram eiga að fara í nóvember. 

Letitia James, ríkissaksóknari New York, tilkynnti um ákæruna í gær.
Letitia James, ríkissaksóknari New York, tilkynnti um ákæruna í gær. AFP

„Þetta er tilhæfulaus ígrunduð árás á samtökin okkar og aðra stjórnarskrárumbótina sem þau berjast fyrir,“ segir í yfirlýsingu NRA. Forseti NRA, Carolyn Meadows, segir að samtökin hafi sjálf ákært James. 

NRA hefur í áratugi endurspeglað skoðanir milljóna skotvopnaeigenda og áhugamanna í Bandaríkjunum og barist, með talsverðum árangri, fyrir umfangsminni og slakari skotvopnalöggjöf. 

NRA hefur haft víðtæk áhrif á kosningar í Bandaríkjunum undanfarna áratugi og lék meðal annars stórt hlutverk í sigri Donalds Trump árið 2016, en synir Trump eru báðir félagsmenn í samtökunum og taka reglulega þátt í viðburðum á þeirra vegum. 

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær var forsetinn spurður út í ákæruna sem hann kallaði „hræðilega“. 

„Ég held að NRA ætti að flytja til Texas og lifa þar góðu og fallegu lífi,“ sagði forsetinn við blaðamenn. 

Einkaþotur og lúxusfrí 

Í ákæru James á hendur NRA og starfsmannanna fjögurra kemur fram að LaPierre hafi notað sjóði samtakanna til að greiða fyrir meðal annars einkaþotur og lúxusfrí með fjölskyldu sinni til Bahama-eyja. Hann greiddi einnig fyrir safarí-ferð í Afríku og aðild að golfklúbbi með fjármunum en í ákærunni segir að NRA hafi engar sannanir fært fyrir því að LaPierre hafi endurgreitt samtökunum fyrir útgjöldin. 

Wayne LaPierre, framkvæmdastjóri NRA, er sakaður um að hafa notað …
Wayne LaPierre, framkvæmdastjóri NRA, er sakaður um að hafa notað sjóði samtakanna til að greiða fyrir einkaþotur og snekkjur. AFP

Þá er LaPierre einnig sakaður um að hafa gefið sjálfum sér 17 milljóna dollara eftirlaunasamning án samþykkis stjórnar samtakanna. 

„NRA hafa verið svo áhrifarík að engin skoðaði samtökin í áratugi á meðan háttsettir starfsmenn mokuðu út milljónum í sína eigin vasa,“ segir James. „NRA eru uppfull af svikum og misneytingu, sem er ástæða þess að í dag sækjumst við eftir því að leysa NRA upp, því engin samtök eru yfir lögin höfð.“

mbl.is