Teiti á heimili sóttvarnalæknis

Hluti af Vestre Aker í Ósló ásamt annálaðasta kennileiti borgarhlutans, …
Hluti af Vestre Aker í Ósló ásamt annálaðasta kennileiti borgarhlutans, skíðastökkpallinum í Holmenkollen. Sá sem hér skrifar býr í Ullern-hverfinu í Vestre Aker. Ljósmynd/Wikipedia.org/Harvey Barrison

Alls hafa 28 manns greinst smitaðir af kórónuveiru eftir mikinn glaum í Vestur-Ósló um síðustu helgi en öll smitin greindust hjá gestum í fjórum teitum í borgarhlutanum Vestre Aker þar sem gestkomandi voru alls 190 að sögn norska ríkisútvarpsins NRK, en VG nefnir töluna 150.

Það sem hefur þó vakið óskipta athygli norskra fjölmiðla og almennings síðan það komst í hámæli í gær er að einn gleðskapurinn átti sér stað á heimili Bjørg Dysthe, yfirlæknis sóttvarna í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar, án þess að hún og maður hennar hefðu hugmynd um það, þar sem afkvæmi þeirra á þrítugsaldri blés til veisluhalda að foreldrunum fjarstöddum og voru þar 40 gestir er mest var.

Samkvæmt núgildandi tilmælum norskra stjórnvalda er mælst til þess að einkasamkvæmi takmarkist við að hámarki 20 manns og þykir málið hið vandræðalegasta fyrir yfirlækninn sem ber höfuðábyrgð á sóttvörnum í fimmta stærsta sveitarfélagi landsins, Bærum.

„Tjái mig ekki um mitt einkalíf“

Það var norska dagblaðið Dagens Næringsliv sem fyrst greindi frá málinu og í kjölfarið nokkrir stærri fjölmiðlar landsins, en staðardagblaðið Budstikka, sem kemur út í Asker og Bærum, ræddi við Dysthe í morgun og var þetta þar í:

Blaðamaður: Var veisla heima hjá þér?

Dysthe: „Ég ætla ekki að tjá mig um neitt sem viðkemur mínu einkalífi.“

Blm.: Er það rétt að þú sért búsett í Vestre Aker, starfir í Bærum og eigir börn á sama aldri og þau sem nú eru smituð?

Dysthe: „Ég tjái mig ekki um mitt einkalíf.“

Blm.: Áttarðu þig á því að ástæðan fyrir þessum spurningum er að þú hefur skrifað fjölda greina um sóttvarnamál í Bærum síðan faraldurinn hófst?

Dysthe: „Þá sóttvarnaráðgjöf, sem kemur frá mér, læt ég í té sem yfirsóttvarnalæknir, ekki sem persóna.“

Blm.: En snúast ekki sóttvarnir um það sem við gerum sem persónur?

Dysthe: „Það er mikilvægt að allir séu minnugir þeirra ráða sem gefin eru og að við kynnum okkur málin séum við í vafa.“

Blm.: Er það skammarlegt að dreifa kórónuveirusmiti?

Dysthe: „Já, því miður, sem torveldar smitrakningu í kjölfarið.“

Sektir eða fangelsi

Stjórnendur Bærum hafa þverneitað að tjá sig nokkuð um málið og segjast Lisa Bang, upplýsingafulltrúi sveitarfélagsins, og Grete Syrdal, sviðsstjóri heilbrigðis- og félagsmálasviðs, hvorug vilja staðfesta fregnirnar né neita þeim. Oddviti bæjarstjórnar, Erik Kjeldstadli, segir þó við Dagens Næringsliv að það sem gerðist sé brot á sóttvarnareglum  og „ekki í lagi“.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara Noregs liggur 20.000 króna sekt (rúmlega 300.000 ISK) við brotum á núgildandi sóttvarnareglum og kemur 15 daga fangelsi í stað óuppgerðrar sektar.

Dysthe sóttvarnayfirlæknir var tilbúin að ræða málið nokkru ítarlegar við VG. „Við maðurinn minn vorum að heiman um helgina og var ekki kunnugt um að samkoma ætti sér stað á heimilinu,“ segir hún í skriflegu svari til blaðsins.

„Þegar ég varð þess áskynja að mörg partý hefðu verið í Vestre Aker, þar á meðal á mínu heimili, og að gestir þaðan hefðu kveflík einkenni, sá ég tafarlaust til þess að veirupróf yrðu framkvæmd og haft yrði samband við alla sem á stöðunum voru svo þeir gætu gert sínar ráðstafanir,“ skrifar sóttvarnalæknirinn, en hlutaðeigandi koma frá Ullern, og fleiri hverfum í Vestre Aker, og Frogner auk nágrannasveitarfélagsins Bærum.

Nokkrir farnir úr landi

Alls hefur verið unnið að því í vikunni að hafa samband við mörg hundruð manns, það er að segja alla sem gestirnir 190 úr samtals fjórum hófum hafa umgengist á einhvern hátt frá því um helgina.

Ekki bætir úr skák að nokkrir gestanna eru farnir til útlanda og segir Elisabeth Vennevold, svæðisstjóri Vestre Aker, að þar sé um innan við fimm manns að ræða. Haft hafi verið samband við alla og þeir beðnir að fara þegar í sóttkví þar sem þeir eru niður komnir. Líklega mun fáum sögum fara af viðbrögðum við þeim tilmælum.

NRK

VG

Budstikka

Dagens Næringsliv (læst áskriftarsíða)

TV2

Dagbladet

mbl.is