Trump segir Biden munu „særa Guð“

Donald Trump og Joe Biden.
Donald Trump og Joe Biden. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í Ohio-ríki í gær að Joe Biden, mótframbjóðandi hans í forsetakosningunum sem fram eiga að fara í nóvember, sé „á móti Guði“, en árásir forsetans á Biden hafa færst verulega í aukana á síðustu dögum. Allt bendir til þess að kosningabaráttan eigi eftir að vera blóðug. 

„Hann er á móti Guði. Hann er á móti byssum,“ sagði forsetinn um andstæðing sinn við blaðamenn í Ohio, en forsetinn reynir nú að endurheimta fylgi sitt í miðvesturríkjunum eftir því sem fram kemur á BBC. 

Biden, sem er yfirlýstur kaþólikki, hefur oft talað um það í fjölmiðlum hvernig trú hans hjálpaði honum þegar hann missti eiginkonu sína og unga dóttur í bílslýsi árið 1972. 

Trump sagði á fundinum að Biden muni „taka byssurnar ykkar, eyðileggja aðra stjórnarskráumbótina. Engin trú, ekkert, særa biblíuna, særa Guð.“

Forsetinn hefur verið sakaður um að nýta stöðu sína sem núverandi Bandaríkjaforseti og flytja boðskap framboðs síns á opinberum viðburðum sem eru hugsaðir til þess að miðla áfram upplýsingum um ríkisstjórn hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert