Elon Musk og Bernie Sanders í hár saman

Elon Musk og Bernie Sanders virðast ekki vera sérstaklega hrifnir …
Elon Musk og Bernie Sanders virðast ekki vera sérstaklega hrifnir af hvor öðrum. Samsett mynd

Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders var ekki lengi að svara fyrir sig á Twitter eftir að Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX, skaut á hann á sama samfélagsmiðli. Sanders sagði að auðæfi Musk væru engin ef ekki væri fyrir „velferðarstyrki fyrir fyrirtæki“.

Elon Musk hóf deiluna þegar hann svaraði tísti, sem vísar í frétt þar sem fjallað er um frumvarp Sanders sem ef samþykkt, myndi leggja 60% skatt á virðisaukningu milljarðamæringa á ákveðnu tímabili. Svarið var í formi skopmyndar af Sanders þar sem gert er grín, að því er virðist, að sósíalískri hugmyndafræði sem hann aðhyllist.

Textinn með myndinni útskýrir „Formlegan drykkjuleik Bernie Sanders“ sem gengur út á það að í hvert skipti sem „The Bernster“ talar um úrræði sem stjórnvöld greiða fyrir þá skuli þamba bjór einhvers annars.

Það liðu ekki nema nokkrar klukkustundir þangað til Sanders var búinn að svara fyrir sig með því að deila skjáskoti af frétt The Los Angeles Times frá árinu 2015 sem fjallar um að auðæfi Musk væru til komin vegna 4,9 milljarða dollara framleiðslustyrkja frá stjórnvöldum.

Með skjáskotinu skrifar Sanders: „Í hvert skipti sem Elon Musk hæðir opinbera aðstoð fyrir 99 prósentin, mundu þá að hann væri einkis virði án 4,9 milljarða dollara velferðarstyrkja fyrir fyrirtæki. Elon hreinlega elskar sósíalískan fyrirtækjarekstur fyrir sjálfan sig en óheflaðan kapítalisma fyrir alla aðra.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir félagar gagnrýna hvor annan eða hugmyndir hvor annars opinberlega. Það er ekki langt síðan Sanders kallaði Musk hræsnara fyrir að gagnrýna styrki stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert