Lenti mínútu of seint

Airbus-vél úr flota SAS. Allir farþegar flugs félagsins frá Nice …
Airbus-vél úr flota SAS. Allir farþegar flugs félagsins frá Nice í Frakklandi, sem lenti á Gardermoen klukkan 00:01 í nótt, þurfa í sóttkví þar sem Frakkland fékk rauða merkingu norskra stjórnvalda á miðnætti. SAS

Allir farþegar með flugi skandinavíska flugfélagsins SAS frá Nice í Frakklandi til Gardermoen-flugvallarins utan við Ósló í Noregi eru á leið í tíu daga sóttkví eftir að vélin lenti klukkan 00:01 í nótt, einni mínútu eftir miðnætti, en á miðnætti fengu Frakkland, Tékkland, Sviss og Mónakó rauða stöðu á kórónuveirukorti norskra stjórnvalda.

Allir sem til Noregs koma frá rauðu löndunum svokölluðu, þar sem nýsmit kórónuveiru eru komin yfir mörk Lýðheilsustofnunar Noregs, 20 ný smit á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikur á undan, verða að hefja dvölina í Noregi í sóttkví.

Reyndar er óljóst hvort vélin lenti klukkan tólf á miðnætti eða eina mínútu yfir, flugumferðarvefurinn Flightradar24 segir 00:01 en flugturninn á Gardermoen segir 00:00. Frá fjölmiðlavakt heilbrigðisráðuneytisins berast norska ríkisútvarpinu NRK þó þær upplýsingar að þetta skipti engu máli, sóttkvíarreglan gildi frá og með klukkan tólf á miðnætti svo vélin hefði þurft að lenda klukkan 23:59 í gærkvöldi til að sleppa fyrir kórónuhornið.

Ætluðu sér í sóttkví hvort sem var

Dagbladet greinir frá því að farþegar hafi klappað ákaft þegar vélin lenti klukkan tólf núll núll og talið sig hafa farið með sigur í sóttkvíarkapphlaupinu en samkvæmt áætlun átti vélin að lenda klukkan 00:10. Lítil flugumferð í heiminum hefur orðið til þess síðustu vikur og mánuði að farþegavélar geta flogið beinni leið en endranær svo mörg vélin hefur verið á undan áætlun til Gardermoen og annarra flugvalla sem einmitt skildi milli feigs og ófeigs þegar tvær vélar SAS og Norwegian reru lífróður um loftin blá þegar Spánn varð rauður fyrir hálfum mánuði.

Mæðgurnar Helene og Monica Møhncke frá Holmestrand, skammt frá Ósló, voru með vélinni á leið heim úr vikufríi í Frakklandi. Sögðust þær í samtali við Dagbladet hafa ætlað sér í sóttkví, að minnsta kosti þar til þær hefðu gengist undir kórónupróf og fengið niðurstöðu, hvort sem vélin hefði lent fyrir eða eftir miðnætti.

Töluverð kergja hefur verið uppi á samfélagsmiðlasíðum Norðmanna undanfarið vegna utanfara fólks sem sagt er bjóða hættunni heim með því að þvælast til útlanda í sumarfrí þrátt fyrir ástand heimsmála og hefur margt köguryrðið fallið hvort tveggja þar og í athugasemdakerfum norskra fjölmiðla eins og mbl.is fjallaði um fyrir stuttu.

Þær mæðgur hafa ekki farið varhluta af þessu og segjast því hafa ákveðið að halda fríi sínu í Frakklandi frá sínum samfélagsmiðlum. „Ég fæ smávegis samviskubit yfir að ferðast,“ segir Helene sem skirrist þó ekki við að ræða ferðalagið við eina af fjölsóttustu fréttavefsíðum Noregs. „Þótt ekki séu margir veikir í Noregi fer þeim fjölgandi. Manni finnst maður kannski verða hluti af því vandamáli við að ferðast,“ segir hún og bætir því við að Frakkland hafi verið grænmerkt þegar þær dóttirin héldu þangað auk þess sem Frakkar hafi verið vel með á nótunum í sóttvarnamálum öllum.

Dagbladet

NRK

VG

mbl.is