44 fangar létust í gríðarlegum hita og þrengslum

Mennirnir 44 höfðu allir verið handteknir í kringum Chad-vatnið.
Mennirnir 44 höfðu allir verið handteknir í kringum Chad-vatnið. AFP

Hópur fanga, alls 44, létust sama kvöldið í apríl í fangelsi í Tjad vegna mikils hita og þrengsla í fangaklefanum.

Saksóknarar í Tjad höfðu áður sagt að fangarnir væru grunaðir um að vera liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram og þeir hefðu allir innbyrt eitur í þeim tilgangi að svipta sig lífi. 

Nú hefur verið gerð sjálfstæð rannsókn á dauða fanganna sem bendir til að þeir hafi allir verið óbreyttir borgarar sem létust vegna hættulega mikilla þrengsla í klefanum, gríðarlegs hita, þorsta og hungurs.

Samkvæmt BBC hefur dómsmálaráðherra Tjads, Djimet Arabi, fengið upplýsingar um rannsóknina og hafði rannsókn innan ráðuneytisins á því sem gerðist. 

Handteknir að tilhæfulausu

Fangarnir 44 fundust látnir í klefanum að morgni 15. apríl, en fangelsið er í útjaðri höfuðborgarinnar N'Djamena. Saksóknarar segja að 40 fangar hafi verið grafnir en fjórir þeirra sendir í krufningu þar sem í ljós kom að þeir höfðu tekið inn eitur. 

Sjálfstæð rannsókn mannréttindaskrifstofu Tjads segir þó aðra sögu. Í skýrslu rannsóknarinnar kemur fram að fangarnir voru óbreyttir þorpsbúar og bændur sem höfðu verið handteknir að tilhæfulausu og geymdir við óviðundandi aðstæður í 46 stiga hita í fangelsinu. 14 fangar sem geymdir voru með þeim 44 sem létust lifðu af og segja að hjálparköll fanganna sem létust hafi verið hunsuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert