Útgönguspá sýnir stórsigur Lúka­sj­en­kós

Mótmælendur fyrir framan óeirðalögreglu í Minsk.
Mótmælendur fyrir framan óeirðalögreglu í Minsk. AFP

Átök brustust út í Hvíta-Rússlandi í kvöld á milli lögreglu og mótmælenda í kjölfar forsetakosninga sem þar fóru fram. Samkvæmt opinberri útgönguspá er útlit fyrir stórsigur Al­ex­and­ers Lúka­sj­en­kós, en hann hefur gegnt embættinu í 26 ár og er fyrsti og eini forseti landsins. Fékk hann í ár eitt sterkasta mótframboðið hingað til, frá Svetlönu Tsikanovskaju, en samkvæmt útgönguspánni fékk hún aðeins 6,8% atkvæða.

Hefur Tsikanovskaja þegar sett fram efasemdir um niðurstöður kosninganna, en í aðdraganda þeirra voru um tvö þúsund manns handteknir í landinu, meðal annars eiginmaður Tsikanovskaju sem hafði boðið sig fram til forsetaembættisins. Samkvæmt útgönguspánni fékk Lúka­sj­en­kó 79,7% atkvæða.

Óeirðalögregla á götum Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands, í kvöld.
Óeirðalögregla á götum Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands, í kvöld. AFP

Eftir að kjörstöðum var lokað flykktust mótmælendur út á götur höfuðborgarinnar Minsk og nokkurra annarra borga í landinu. Voru nokkur þúsund mótmælendur í miðborg Minsk, en þeim mættu nokkur hundruð lögreglumenn. Í beinni útsendingu á vegum Radio-Liberty, sem er rekin með stuðningi Bandaríkjanna, mátti sjá óeirðalögreglu kasta hvellsprengjum og fara fram gegn mótmælendum þar sem þeir flúðu undan henni.

Miðlar sem eru tengdir stjórnarandstöðunni í Hvíta-Rússlandi hafa sagt að lögregla hafi beitt háþrýstibyssum og skotið gúmmíkúlum á mótmælendur, auk þess sem lögreglubíl hafi verið keyrt á hóp mótmælenda.

Sagði Tsikanovskaja á blaðamannafundi eftir að kjörstöðum var lokað að hún treysti ekki þeim niðurstöðum sem sýndu sigur Lúka­sj­en­kós. „Ég trúi því sem ég sé og ég sé að meirihlutinn er með okkur.“ Sagði hún jafnframt að framboð sitt hefði unnið því þeim hefði tekist að vinna bug á ótta sínum.

Mótmælendur og lögregla á götum Minsk.
Mótmælendur og lögregla á götum Minsk. AFP

Gert er ráð fyrir fyrstu tölum í nótt, en mikill viðbúnaður hefur verið vegna kosninganna. Þannig var mikill fjöldi herfarartækja á götum Minsk í dag, mörg hver búin vélbyssum. Var leitað í ökutækjum sem komu inn til borgarinnar og á fólki sem fór inn í opinberar byggingar.

Svetl­ana Tsikanovskaja er 37 ára ensku­kenn­ari og þýðandi, sem kall­ar sjálfa sig „hefðbundna konu, móður og eig­in­konu“. Steig hún inn í kosn­inga­bar­átt­una eft­ir að yf­ir­völd tóku hönd­um eig­in­mann henn­ar, vin­sæl­an blogg­ara úr röðum stjórn­ar­and­stöðunn­ar sem sjálfur hafði stefnt á fram­boð.

Í fyrstu fannst henni sviðsljósið óþægi­legt, að því er seg­ir í um­fjöll­un frétta­veit­unn­ar AFP, en hef­ur unnið á og aflað stuðnings víða að með lof­orði sínu um að frelsa þá stjórn­ar­andstæðinga sem yf­ir­völd hafa hneppt í fang­elsi.

Hún hef­ur einnig sagst munu boða til nýrra kosn­inga sem gera myndu öll­um stjórn­ar­andstæðing­um kleift að vera með. Í fram­boðshópi henn­ar, sem inni­held­ur aðeins kon­ur, eru meðal ann­ars eig­in­kona for­manns eins stjórn­ar­and­stöðuflokks og kosn­inga­stjóri ann­ars. Ætluðu eiginmenn þeirra að bjóða sig fram, en var annaðhvort meinað að gera það eða flúðu land vegna hótana.

Svetlöna Tsikanovskaju kom óvænt fram sem helsti mótframbjóðandi Lúka­sj­en­kó.
Svetlöna Tsikanovskaju kom óvænt fram sem helsti mótframbjóðandi Lúka­sj­en­kó. AFP
mbl.is