Fimm milljónir hafa greinst með veiruna í Bandaríkjunum

Skammt frá spítala í Flórída-ríki.
Skammt frá spítala í Flórída-ríki. AFP

Nú hafa ríflega fimm milljónir kórónuveirusmita greinst í Bandaríkjunum að því er fram kemur í gögnum fréttastofu Reuters. Koma fregnirnar í kjölfar frétta af jákvæðri þróun bóluefna. Eru vonir bundnar við að bóluefni verði komið á markað þar í landi undir lok árs. 

Sé miðað við fjölda íbúa landsins hefur einn af hverjum 66 íbúum greinst með veiruna, en hvergi annars staðar í heiminum hefur viðlíka fjöldi greinst. Alls hafa 160 þúsund Bandaríkjamenn látið lífið sökum veirunnar. 

Framangreindur fjöldi smita kemur í kjölfar forsetaskipunar Donald Trumps Bandaríkjaforseta þar sem hann tryggði landsmönnum áframhaldandi atvinnuleysisbætur vegna áhrifa faraldursins. Undirritaði Trump forsetaskipunina eftir að upp úr samningaviðræðum slitnaði í þinginu. 

Anthony Fauci sóttvarnalæknir Bandaríkjanna greindi frá því á miðvikudag að eitt bóluefni hið minnsta yrði komið á markað nú um áramótin. Er það í samræmi við ummæli Bandaríkjaforseta sem þó telur að slík lausn verði tilbúin áður en að forsetakosningum kemur 3. nóvember nk.

mbl.is