Andlitsgrímur skylda víða í París

Skylda er að bera andlitsgrímur víða í París frá og með deginum í dag en frönsk yfirvöld hafa hert sóttvarnareglur vegna fjölgunar nýrra kórónuveirusmita þar í landi undanfarna daga. Grímuskyldan nær til 11 ára og eldri og gildir á mannmörgum svæðum, svo sem við bakka Signu og á útimörkuðum. 

Aftur á móti er ekki skylda að vera með grímur á nokkrum vinsælum ferðamannastöðum, svo sem í Eiffel-turninum, Sigurboganum og við breiðgötuna Champs-Elysees.

Grímuskylda tók gildi víða í París í morgun. Þar á …
Grímuskylda tók gildi víða í París í morgun. Þar á meðal við bakka Signu. AFP

Grímuskylda er á opinberum stöðum í Frakklandi og þeir sem brjóta reglurnar eiga yfir höfði sér allt að 135 evru sekt. Það svarar til 21.600 króna.

Líkt og víðast hvar í heiminum hefur smitum fjölgað í Frakklandi eftir að létt var á samkomutakmörkunum. Sérfræðingar segja að Frakkar geti misst stjórn á COVID-19-faraldrinum hvenær sem er að því er fram kemur á vef BBC.

Í Victoria-ríki í Ástralíu hefur dauðsföllum af völdum COVID-19 fjölgað hratt að undanförnu og eru alls 314 látnir í Ástralíu af völdum farsóttarinnar. Alls eru smit í Ástralíu 21.400 talsins frá upphafi. Undanfarna daga hefur nýjum smitum fækkað sem gefur vísbendingar um að harðar reglur sem eru í gildi í Melbourne séu að skila árangri. Þar hefur útgöngubann verið í gildi frá klukkan 20 á kvöldin til 5 á morgnana í á aðra viku. Eins hefur Victoria-ríki verið einangrað frá öðrum ríkjum Ástralíu. 

Aftur á móti þarf ekki að bera grímu þegar farið …
Aftur á móti þarf ekki að bera grímu þegar farið er upp í Eiffel-turninn. AFP

Í New York Times er greint frá því að 97 þúsund börn hafi greinst með COVID-19 síðustu tvær vikurnar í júlí. Yfir fimm milljónir hafa greinst með veiruna í Bandaríkjunum og af þeim eru tæplega 163 þúsund látin. 

Íbúar í Melbourne mega fara út að hreyfa sig daglega …
Íbúar í Melbourne mega fara út að hreyfa sig daglega en ekki of langt frá heimilum sínum. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert