Blaðamaður dæmdur í fangelsi í Alsír

Blaðamaðurinn Khaled Drareni var handtekinn í mars síðastliðinn
Blaðamaðurinn Khaled Drareni var handtekinn í mars síðastliðinn AFP

Alsírskur blaðamaður hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi vegna umfjöllunar sinnar um mótmæli þar í landi. Úrskurður í málinu var kveðinn upp fyrir dómi í dag, mánudag.

Blaðamaðurinn Khaled Drareni var handtekinn 29. mars síðastliðinn fyrir að „kynda undir óvopnuðum samkomum“ og „stefna samheldni þjóðarinnar í hættu“.

Vikuleg mótmæli höfðu farið fram í Alsír í rúmt ár þangað til í mars, þegar hlé var gert á mótmælunum vegna kórónuveirufaraldursins. Mótmælin hafa verið kölluð Hirak-hreyfingin, og beindust í upphafi gegn forseta landsins, Abdelaziz Bouteflika. Mótmælendur héldu ótrauðir áfram þrátt fyrir að forsetinn segði af sér í lok mars 2019, og beindu sjónum sínum að víðtækari vandamálum í stjórn landsins.

Drareni, sem er ritstjóri fréttasíðunnar Casbah Trubune og fréttaritari fyrir TV5 Monde, hafði hafnað sök í málinu og sagðist aðeins hafa verið að gegna skyldum blaðamanns með umfjöllun sinni um mótmælin.

Samtökin Blaðamenn án landamæra (RSF) fordæmdu handtöku Drarenis og sögðu hana aðför að blaðamannafrelsi í landinu. Aðalritari RSF sagði, áður en úrskurður var kynntur fyrir dómi, að ef Drareni verði fundinn sekur í málinu sé það staðfesting á því að Alsír hafi tekið stefnuna í átt að alræði.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í upprunalegri frétt kom fram að úrskurður myndi berast seinna í dag, en niðurstaða barst stuttu eftir að fréttin var birt. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert