Ferðamenn fangelsaðir svindli þeir á sóttkví

Sýnataka í bíl í finnsku höfuðborginni, Helsinki.
Sýnataka í bíl í finnsku höfuðborginni, Helsinki. AFP

Ferðamenn sem koma til Finnlands frá svæðum þar sem nýgengi kórónuveirusmita er hátt verða að gjöra svo vel að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna. Geri þeir það ekki eiga þeir von á sekt eða þriggja mánaða fangelsisvist.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Kristu Kiuru heilbrigðisráðherra og Miku Salminen, yfirmanni finnsku heilsu- og velferðarstofnunarinnar THL, í kvöld. 

Fundurinn var haldinn sama dag og greint var frá því að 24 af 157 farþegar sem komu til Finnlands með flugi frá Skopje í Norður-Makedóníu voru smitaðir af COVID-19. 

Salminen sagði að nú væri ekki lengur hægt að treysta ferðamönnunum sjálfum til að fara í sóttkví og Kiuru bætti því við að við brotum lægi sektargreiðsla eða fangelsisvist. Einnig kæmi til greina að senda fólk í sýnatöku, hvort sem það vildi það eða ekki.

mbl.is