Forstjóraskipti hjá Equinor

Eldar Sætre, forstjóri Equinor, stígur inn í sólskin eftirlaunaáranna 1. …
Eldar Sætre, forstjóri Equinor, stígur inn í sólskin eftirlaunaáranna 1. mars á næsta ári en eftirlætur Anders Opedal verkfræðingi, bindislausum og brosmildum á myndinni, forstjórastólinn 2. nóvember á þessu ári. Hlutabréf fyrirtækisins hækkuðu um 1,6 prósent í kauphöllinni í Ósló þegar skiptin urðu heyrum kunn í morgun. Ljósmynd/Equinor

Eldar Sætre yfirgefur forstjórastól norska ríkisolíufyrirtækisins Equinor, áður Statoil, í byrjun nóvember eftir sex ár þar en rúmlega 40 ár hjá fyrirtækinu sem gerði forstjóraskipti sín heyrum kunn í morgun. Eftir formleg starfslok verður Sætre til taks sem ráðgjafi olíufyrirtækisins, sem norska ríkið á að tveimur þriðju hlutum, þar til 1. mars þegar hann fer á eftirlaun en Sætre verður 65 ára í febrúar.

Anders Opedal olíuverkfræðingur, og reyndar fyrsti verkfræðingurinn til að stýra norska olíurisanum í sögu hans, tekur við keflinu úr hendi Sætre 2. nóvember. Opedal hefur sinnt ýmsum störfum í þjónustu fyrirtækisins, verið yfirverkefnastjóri og innkaupastjóri auk þess að hafa síðustu ár farið með yfirstjórn umsvifa Equinor í Brasilíu.

Hlutabréf hækkuðu

„Stjórnin veitir Opedal umboð til að stýra þróun fyrirtækisins í átt að aukinni breidd þess sem orkufyrirtækis og auka verðmæti þess fyrir eigendurna gegnum orkuskiptin,“ segir Jon Erik Reinhardsen stjórnarformaður í fréttatilkynningu.

Hlutabréf Equinor hækkuðu um 1,6 prósent á fyrsta hálftíma viðskipta í kauphöllinni í Ósló í morgun í kjölfar fréttatilkynningar Equinor um forstjóraskiptin.

Tina Bru, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, óskar Equinor til hamingju með nýjan forstjóra í tölvupósti til norska ríkisútvarpsins NRK. „Þótt Eldar Sætre sitji áfram sem forstjóri í nokkra mánuði langar mig um leið til að færa honum þakkir fyrir mikil og góð störf í þjónustu Equinor, hvort tveggja í forstjórastólnum og í áratugi á öðrum vettvangi innan fyrirtækisins.“

Ráðherra gerir sér væntingar

Enn fremur skrifar ráðherra að nú bíði arftakans Opedal krefjandi og mikilvægt starf við að leiða þróun orkufyrirtækis sem leggja muni sitt lóð á vogarskál þess að Noregur nái sínum markmiðum í loftslagsmálum samkvæmt Parísarsáttmálanum.

„Ég geri mér miklar væntingar til Anders Opedal sem verðandi forstjóra og bið honum allrar blessunar sem stjórnanda stærsta og þýðingarmesta fyrirtækis Noregs,“ skrifar ráðherra að lokum.

„Ég þekki Anders vel og þykist þess fullviss að hann er rétti maðurinn til að leiða fyrirtækið áfram gegnum næsta kafla orkuskiptanna,“ lætur Eldar Sætre að lokum hafa eftir sér í fréttatilkynningu frá Equinor.

E24

NRK

ABC Nyheter

Dagens Næringsliv

mbl.is