Hefja skimun á Gardermoen

Gardermoen-flugvöllurinn við Ósló. Frá og með næstu viku býðst öllum …
Gardermoen-flugvöllurinn við Ósló. Frá og með næstu viku býðst öllum komufarþegum, hvort sem er í innan- eða utanlandsflugi, að gangast undir skimun fyrir kórónuveirunni á flugvellinum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Espen Solli

„Það er ljóst að við höfum enga 40 til 50 heilbrigðisstarfsmenn á lausu hér í sveitarfélaginu til að setja í þetta. Til allra heilla höfum við fengið vilyrði frá ríkinu um að fjármagnið komi þaðan sem er mjög mikilvægt fyrir okkur svo þetta falli ekki á sveitarfélagið.“

Þetta segir Eyvind Jørgensen Schumacher, bæjarstjóri í Ullensaker, því sveitarfélagi sem stærstur hluti Gardermoen-flugvallarins utan við Ósló tilheyrir. Frá og með næstu viku hefst skimun fyrir komufarþega utan- og innanlandsflugs á flugvellinum sem þar með fylgir fordæmi flugvallanna í Bergen og Stavanger.

Skimunin á norsku flugvöllunum er þó engin skylda, farþegum sem lenda á flugvellinum er í sjálfsvald sett hvort þeir gangast undir veirupróf eður ei, en geri þeir það fá þeir að vita mjög skömmu eftir komuna til landsins hvort þeir beri smit eftir ferðalag sitt sem óneitanlega flýtir fyrir því ferli að hefja smitrakningu svo fljótt sem verða má auk þess sem farþegar í innanlandsflugi, sem greinast með smit, geta strax gert ráðstafanir og farið í sóttkví sem þeir ella hefðu ekki þurft að gera fyrr en við einkenni eða fregnir um að þeir hafi verið í návígi við smitaðan einstakling.

Lítill áhugi í Bergen

Það eru Avinor, sem er rekstraraðili flugvallarins, Lýðheilsustofnun Noregs og sveitarfélagið sem standa að því í sameiningu að setja upp skimunarstöðvar á flugvellinum. „Þetta krefst skipulags, hér er umferðin auðvitað margfalt meiri en um Stavanger og Bergen,“ segir Schumacher þótt ljóst megi vera að tölur ársins í ár verði hvergi nálægt þeim 28,5 milljónum farþega sem fóru um Gardermoen árið 2019.

Guli Høeg Ulverud, upplýsingafulltrúi Avinor, segir að hlutverk hennar fyrirtækis verði fyrst og fremst að útvega aðstöðu á flugvellinum til að framkvæma prófin. „Heilbrigðiskerfið ber ábyrgð á prófunarstöðvunum, okkar framlag verður að finna pláss fyrir þetta,“ segir Ulverud.

Áhugi komufarþega á veiruprófum á Flesland-flugvellinum í Bergen hefur ekki beinlínis lyft þakinu af flugstöðvarbyggingu vesturlandshöfuðstaðarins og fáir þar látið prófa sig, en Schumacher telur víst að nóg verði að gera hjá skimunarfólki á Gardermoen vegna þess fjölda sem þar fer um dag hvern.

Stígi gætilega til jarðar

Möguleikinn á veiruprófi á Gardermoen við komu til Noregs breytir þó engu um þá skyldu farþega, sem koma frá rauðu löndunum svokölluðu, að hefja dvöl sína í Noregi í tíu daga sóttkví, hún er ófrávíkjanleg.

„Fólk þarf að stíga mjög gætilega til jarðar við komu frá útlöndum, óháð því hvað prófið segir,“ tekur bæjarstjórinn fram og bendir á þá kunnu staðreynd að nýtilkomið smit komi ógjarnan fram á prófum. „Það er hluti skýringarinnar á því hvers vegna við fórum ekki í þessa framkvæmd fyrr,“ eru lokaorð hans við norska ríkisútvarpið NRK í kvöld um nýju skimunarstöðvarnar á stærsta flugvelli Noregs.

NRK

NRKII (Lýðheilsustofnun Noregs vill greiðari aðgang að prófum)

Dagsavisen

mbl.is