Segir mótmælendum stýrt að utan

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands.
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands. AFP

Forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lúkasjenkó, segir þá sem mótmælt hafa niðurstöðu forsetakosninga þar í  landi í gær og í dag, vera að ganga erinda erlendra ríkja. Lúkasjenkó var í gær endurkjörinn forseti Hvíta-Rússlands, sjötta kjörtímabilið í röð.

Mótmælaalda geisar nú í landinu og eru niðurstöður kosninganna sagðar falsaðar. Svetlana Tsíkanovskaja, mótframbjóðandi Lúkasjenkós, segir sig raunverulegan sigurvegara kosninganna. 

Forsetinn segir jafnframt að hvítrússnesk stjórnvöld hefðu fylgst með þeim sem tóku þátt í mótmælum á götum borga landsins í gær. Hann fullyrðir að símtöl hefðu borist mótmælendum frá nærliggjandi ríkjum eins og Póllandi og Tékklandi og jafnvel frá Bretlandi. Segir Lúkasjenkó að verið sé að stjórna mótmælendum frá þessum ríkjum.

Aðalmótframbjóðandi Lúkasjenkós, Svetlana Tsíkanovskaja, lýsir því yfir að hún sé raunverulegur sigurvegari kosninganna. Hún segir að stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi verði að fara að hugsa hvernig megi færa valdið í hendur fólksins með friðsamlegum hætti. Engu skipti að mótmælendur hafi margbeðið um að valdi yrði ekki beitt, stjórnvöld hafi ekki hlustað. Tsíkanovskaja bauð sig fram til forseta Hvíta-Rússlands í stað eiginmanns síns sem situr í fangelsi fyrir að hafa stofnað til óeirða í landinu.

Haft hefur verið eftir Lúkasjenkó að hann muni ekki leyfa landi sínu að klofna í tvennt. Telja margir að niðurstöður forsetakosninganna í gær hafi verið falsaðar. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem gjarnan fer með kosningaeftirlit í ríkjum Evrópu og víðar um heim, er bannað að hafa eftirlit með kosningum í Hvíta-Rússlandi. 

mbl.is