Skólasetningu frestað vegna hópsýkingar

Skólar hefjast í Danmörku í dag en í tveimur grunnskólum …
Skólar hefjast í Danmörku í dag en í tveimur grunnskólum í Árósum þurfti að fresta skólasetningu vegna COVID-19 smita. AFP

Skólasetningu hefur verið frestað í Árósum vegna fjölgunar smita meðal skólabarna. Yfir helmingur allra nýrra smita í Danmörku um helgina er í Árósum.

Alls voru staðfest 128 ný kórónuveirusmit í Danmörku í gær og af þeim voru 78 í annarri stærstu borg landsins, Árósum. Á laugardag voru ný smit 169 talsins og þar af voru 79 í Árósum.

Bellevue-ströndin í Árósum. Lögreglan hefur hert eftirlit með ströndum og …
Bellevue-ströndin í Árósum. Lögreglan hefur hert eftirlit með ströndum og öðrum stöðum þar sem fólk safnast saman. AFP

Grunnskólar eru settir í Danmörku í dag eftir sex vikna sumarfrí en í Árósum þurfa nemendur tveggja skóla að bíða lengur vegna COVID-19-smits meðal nemenda í skólunum. Um er að ræða Skjoldhøjskolen og Sødalskolen í vesturhluta borgarinnar en börnin sem hafa smitast höfðu verið á frístundaheimilum skólanna.

Þegar beðið er eftir lestum eða strætó þarf að vera …
Þegar beðið er eftir lestum eða strætó þarf að vera með grímu í Árósum. AFP

Skólastjórinn í Skjoldhøjskolen, Henrik Josva Schou, segir að þrátt fyrir að ekki séu smit í öllum árgöngum sé mikilvægt að allir bekkir hefji skólastarf á sama tíma og því hafi verið ákveðið að fresta skólasetningunni.

Frétt Politiken

Í Danmörku hafa flest smit að undanförnu greinst í Árósum auk Ringsted en þar kom upp hópsýking í sláturhúsi.

Borgaryfirvöld í Árósum hafa tilkynnt hertar aðgerðir til að koma í veg fyrir fjölgun smita. Þar á meðal andlitsgrímuskyldu í almenningssamgöngum. Gildir þar einu hversu langt ferðalagið er. Þessar nýju reglur gilda frá 11. ágúst til 1. september. Áður en farið er upp í strætisvagna verða farþegar að hafa keypt miða fyrirfram og vera með andlitsgrímu fyrir vitum sér. Sama gildir um Letbane-léttlestina, rútur og ferjur. Eins verða farþegar að vera með grímu þegar beðið er eftir strætisvagni eða á járnbrautarstöðvum og umferðarmiðstöðvum.

AFP

Undantekningar gilda fyrir þá sem eiga erfitt með öndun eða erfitt með að taka af eða setja á sig grímu án utanaðkomandi aðstoðar, svo sem vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar. Grímuskyldan er fyrir 12 ára og eldri.

Starfsmenn Midttrafik dreifa í dag ókeypis grímum til farþega sem ekki eru með grímur í farteskinu. Eins hefur fólk verið beðið að sleppa því að nota almenningssamgöngur sé þess nokkur kostur.

Um helgina bárust fréttir af því að andlitsgrímur hefðu selst upp í apótekum í Árósum. Nú hefur fimm milljón grímum verið dreift í verslanir í borginni þannig að talið er að hægt verði að kaupa grímur víðast hvar í dag.

Jafnframt hefur verið settur aukinn kraftur í sýnatöku í Árósum. Heimsóknarbann hefur verið sett á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum en fyrsta smitið kom upp í gær á hjúkrunarheimili í borginni frá 10. mars. Um er að ræða hjúkrunarheimilið Thorsgården í Åbyhøj.

TV2

mbl.is