Spenna í samskiptum Breta og Frakka

AFP

Aukin spenna er í samskiptum breskra og franskra yfirvalda vegna fjölda flóttafólks sem hefur komið yfir Ermarsundið til Bretlands undanfarið. Alls hafa yfir fjögur þúsund flóttamenn komið að landi í Dover og nágrenni á litlum bátum það sem af er ári. 

Meðal þeirra sem komu um helgina eru fjölskyldur með lítil börn. Innanríkisráðuneytið hefur staðfest við Guardian að bara á laugardag hafi 151 flóttamaður komið þessa leið til Bretlands.

Í gær svaraði franska ríkisstjórnin ásökunum af hálfu breskra ráðherra um að yfirvöld fylgdust ekki nægjanlega með ferðum fólks frá Frakklandi. Innanríkisráðherra Frakklands, Gérard Darmanin, mun eiga fund með Chris Philp, sem fer með innflytjendamál í bresku ríkisstjórninni, í París á morgun. Talið er líklegt að talsverður titringur verði á fundinum en Philp hefur sagt Frakka ekki gera nægjanlega mikið til að koma í veg fyrir flótta yfir Ermarsundið og gaf þeim um helgina ráð um hvað þyrfti að gera til að takast á við vandamálið.

Franskir lögreglumenn við eftirlit í Tardinghen, skammt frá Calais.
Franskir lögreglumenn við eftirlit í Tardinghen, skammt frá Calais. AFP

Frakkar hafa aukið viðbúnað við norðurströnd landsins og stöðvað för yfir eitt þúsund flóttamanna á þremur vikum. Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins er það gert til að koma í veg fyrir að fólk leggi af stað í hættuför yfir Ermarsundið.

Fyrstu sex mánuði ársins hafi tekist að stöðva miklu fleiri en á sama tímabili í fyrra og þeim haldi bara áfram að fjölga. Í júlí 2020 voru þeir tíu sinnum fleiri en í sama mánuði í fyrra. 

Það sem af er ágúst hafa 650 flóttamenn komist að landi í Bretlandi og flestir þeirra komu í síðustu viku. 

Guardian

BBC

Telegraph

mbl.is