Tala látinna heldur áfram að hækka

Líbanskir syrgjendur bera kistu fórnalambs sprengingarinnar.
Líbanskir syrgjendur bera kistu fórnalambs sprengingarinnar. AFP

Talið er að fleiri en 200 íbúar Beirút séu nú látnir eftir sprengingu sem varð í borginni síðasta þriðjudag. 5.000 slösuðust og 300.000 misstu heimili sín í sprengingunni. 

Marwan Abboud, borgarstjóri Beirút, segir að fjölda sé enn saknað, margir þeirra erlendir verkamenn. Fram kemur á BBC að Abboud hafi sagt við líbanska fjölmiðla að tala látinni væri nú 220 og að 110 væri enn saknað. 

Þrír ráðherrar hafa nú stigið til hliðar, síðast dómsmálaráðherra landsins nú í morgun. Afsögn ráðherranna þriggja hefur gert lítið til að lægja mótmæli víða um Líbanon, en til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í gærkvöldi og aftur hefur verið boðað til mótmæla síðdegis í dag. 

Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanons, hefur óskað eftir því að gengið verði til kosninga í landinu sem fyrst, en hann á fund með ríkisstjórn sinni síðar í dag. 

mbl.is