114 þúsund Bretar misstu vinnuna í júlí

AFP

Alls hafa 730 þúsund misst vinnuna í Bretlandi frá því í mars og er atvinnuleysi þar 3,9%. Nánast allt athafnalíf Bretlands lamaðist í mars þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði sem harðast þar. 

Alls fækkaði launþegum um 220 þúsund á öðrum ársfjórðungi í Bretlandi samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Bretlands. Í júlí bættust 114 þúsund í þennan hóp. 

Englandsbanki varaði við því í síðustu viku að búast megi við því að hlutfall atvinnulausra fari í 7,5% í lok árs þegar starfsfólk fyrirtækja hættir að fá greitt úr ríkissjóði vegna lokunar fyrirtækja. Ríkið hefur greitt allt að 80% af launum tæplega 10 milljón starfsmanna í Bretlandi undanfarna mánuði og teljast þeir þar af leiðandi ekki til atvinnulausra. 

Bresk fyrirtæki, allt frá stórum verslunarkeðjum til flugfélaga, eru að fækka störfum í þúsundavís þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda til að bjarga atvinnurekendum og launþegum á tímum COVID-19. Flestir þeirra sem hafa misst vinnuna eru gamalt og ungt fólk sem og þeir sem eru með minnstu menntunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert