4 ný innanlandssmit á Nýja-Sjálandi

Fyrsta innanlandssmitið á Nýja-Sjálandi í 102 daga greindist í dag. Forsætisráðherra landsins hefur ákveðið að herða sóttvarnareglur í stærstu borg landsins í kjölfarið. 

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir að fjögur ný kórónuveirusmit hafi verið staðfest í einni og sömu fjölskyldunni í Auckland. Ekki er vitað um uppruna smitanna. 

Ardern segir að þetta séu fyrstu COVID-19-smitin sem greinast fyrir utan sóttkvíar í landinu í 102 daga. Hún segir að stjórnvöld séu vel undir þetta búin og hefur íbúum Auckland verið fyrirskipað að halda sig heima nema brýna nauðsyn beri til.

Mjög hefur verið horft til Nýja-Sjálands þegar talað er um að skella í lás með góðum árangri en landamærum var lokað fyrir útlendingum frá og með 19. mars. Þegar sóttvarnareglur voru hertar í landinu 23. mars var fólki gert að halda sig alfarið heima í fimm vikur. Það mátti ekki kaupa aðsendan mat, ekki fara á ströndina og fólk mátti ekki keyra út fyrir hverfið sitt. Að fimm vikum liðnum voru þær framlengdar að mestu í tvær vikur. 

Aðeins 22 hafa látist á Nýja-Sjálandi úr COVID-19 en alls eru íbúarnir 4,9 milljónir talsins. Ekkert innanlandssmit hafði greinst þar frá 1. maí. Þetta hefur þýtt að Nýsjálendingar hafa getað farið á menningar- og íþróttaviðburði án þess að gæta tveggja metra reglunnar. 
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern.
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern. AFP

En nú eru breyttir tímar, að minnsta kosti næstu þrjá daga, í Auckland því borginni verður lokað að mestu frá og með miðvikudegi í þrjá sólarhringa. Tveggja metra reglan verður endurvakin annars staðar í landinu líkt og gert var á Íslandi fyrir skemmstu. 

Frétt mbl.is

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, tekur meðal annars Nýja-Sjáland sem dæmi um land sem hefur beitt ströngum sóttvörnum á landamærum í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið í gær. 

„Ef aukið flæði ferðamanna hefur í för með sér að farsótt geisi innan lands verður efnahagslegt tjón þjóðarbúsins margfalt meira en sá ávinningur sem fjölgun ferðamanna hefði í för með sér. Hagkerfi marga Vesturlanda hefur orðið fyrir miklu áfalli í ár, ekki vegna þess að ferðamönnum hefur fækkað heldur af því að fólk getur ekki mætt til vinnu og margvísleg viðskipti geta ekki átt sér stað. Ekki þarf að horfa mikið lengra en til Bretlands til þess að sjá slæmar efnahagslegar afleiðingar farsóttar og harkalegri sóttvarna en Íslendingar hafa hingað til kynnst.

Þá verður einnig að hafa í huga aðra þá sem verða illa úti ef farsóttin herjar á samfélagið nú í vetur. Ef ekki er unnt að starfrækja framhaldsskóla og háskóla með eðlilegum hætti verður ungt fólk illa úti. Ef skólahald leggst jafnvel tímabundið af þá fer það sérstaklega illa með þá sem standa veikt fyrir. Slíkt rask á skólahaldi er líklegt til þess að hafa félagslegar og efnahagslegar afleiðingar til langs tíma. Eldri kynslóðir einangra sig frá börnum og barnabörnum og getur slíkt haft slæm andleg áhrif. Mikið álag á heilbrigðiskerfið bitnar á starfsfólki þess og sjúklingum með aðra sjúkdóma en COVID-19. Kvíði og áhyggjur plaga almenning.

Það er skiljanlegt að þrýst sé á að liðka fyrir komum erlendra ferðamanna til þess að bjarga fyrirtækjum í ferðaþjónustu og minnka atvinnuleysi. En þeir sem taka ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar verða að hafa heildarhagsmuni skýra. Ekki má horfa fram hjá þeim mikla efnahagslega skaða sem verður ef farsóttin herjar á samfélagið í vetur. Efnahaglegt tap af völdum farsóttar innan lands getur verið mikið eins og sést í mörgum nálægum ríkjum.

Af þessum sökum hafa mörg eyríki, svo sem Nýja-Sjáland, ákveðið að nota sérstöðu sína til þess að hafa strangar sóttvarnir á landamærum og vernda þannig innlent hagkerfi og samfélag uns lyf og bóluefni koma til hjálpar. Í nágrenni okkar mælir utanríkisráðuneyti Noregs, svo dæmi sé tekið, með því að Norðmenn ferðist ekki til útlanda nema brýnustu nauðsyn beri til,“ segir í grein Gylfa í Morgunblaðinu í gær. 

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina