Bandaríkjastjórn býst við bóluefni í desember

Alex Azar heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna.
Alex Azar heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, vonast til að bóluefni gegn kórónuveirunni fái grænt ljós eftirlitsstofnana í desember. Þetta sagði hann í morgun. 

Fyrr í dag tilkynntu rússnesk stjórnvöld að fyrsta bóluefnið gegn kórónuveirunni væri tilbúið þar í landi, en lyfið var samþykkt til notkunar þrátt fyrir viðvaranir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að gera þyrfti hefðbundnar prófanir á bóluefninu áður en það væri tekið í almenna notkun.

„Punkturinn er ekki að vera fyrstur. Punkturinn er að fá bóluefni sem er öruggt og skilvirkt fyrir Bandaríkjamenn og þjóðir heimsins,“ sagði Azar en hann var gestur þáttarins Good Morning America í morgun.

Bandarísk yfirvöld eiga í samstarfi við átta einkaaðila um þróun bóluefnis: Johnson & Johnson, Astra-Zeneca-Háskólans í Oxford, Pfizer-BioNTech, Moderna, Merck, Vaxart, Inovio og Novavax. Gengur verkefnið undir nafninu Operation Warp Speed.

Bandarísk stjórnvöld hafa þegar tryggt sér hundruð milljóna bóluefnisskammta, takist að framleiða öruggt og skilvirkt efni. Þannig hefur verið samið um kaup á 100 milljónum skammta frá Novavax fyrir 1,6 milljarða dala og aðrar 100 milljónir skammta frá Pfizer og BioNtech fyrir 2 milljarða dala.

mbl.is

Bloggað um fréttina