Kamala Harris varaforsetaefni Bidens

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata í Bandaríkjunum, hefur valið öldungadeildarþingmanninn Kamölu Harris frá Kaliforníu sem varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum sem fram fara í nóvember. Biden greindi frá þessu fyrir skemmstu.

Harris var meðal þeirra sem börðust við Biden um útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, en hún dró framboð sitt til baka í desember. Meðan á framboði hennar stóð hafði hún margsinnis gagnrýnt Joe Biden, meðal annars fyrir að hafa á áttunda áratugnum lagst gegn skólabílum sem notaðir voru til að ferja nemendur um langa leið í viðleitni yfirvalda til að auðvelda nemendum úr fátækari hverfum að sækja betri skóla um langan veg. Í mars lýsti hún síðan yfir stuðningi við Biden.

Valið þarf ekki að koma mönnum á óvart en Harris var ein nokkurra sem nefnd hafði verið sem mögulegt varaforsetaefni Bidens og jafnan talin líklegust til að hreppa hnossið. Harris, sem er 55 ára gömul, er fyrsta svarta konan í framboði til varaforseta meðal stóru flokkanna tveggja.

Hún er lögfræðingur að mennt og gegndi embætti saksóknara í Kaliforníu frá árinu 2010 og þar til hún bauð sig fram til öldungadeildarinnar árið 2016. Þegar Harris var saksóknari sætti hún gagnrýni umbótasinna sem þóttu hana reka of harða refsistefnu. Hún hefur síðar tekið þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi í Bandaríkjunum og barist fyrir umbótum innan lögreglunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð 

Kamala Harris á kosningafundi Bidens í mars þegar hún lýsti …
Kamala Harris á kosningafundi Bidens í mars þegar hún lýsti yfir stuðningi við framboð hans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert