Mögulegt smit getur komið í veg fyrir heimkomu

Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er með til skoðunar að setja nýjar reglur sem heimila landamæravörðum að banna bandarískum ríkisborgurum og þeim sem eru með landvistarleyfi í Bandaríkjunum að koma til landsins erlendis frá ef talið er mögulegt að viðkomandi sé smitaður af kórónuveirunni. Þetta kemur fram í frétt New York Times.

Undanfarna mánuði hefur Trump hert reglur varðandi komur fólks til Bandaríkjanna og vísað þar í hættuna á að kórónuveiran komi frá áhættustöðum í heiminum. Hingað til hafa þessar reglur ekki gilt um bandaríska ríkisborgara sem eru að koma erlendis frá eða þá sem eru með dvalarleyfi í Bandaríkjunum. 

Nú liggur fyrir frumvarp sem heimilar yfirvöldum að herða þessar reglur og hafa alríkisstofnanir fengið það til umsagnar. Ekki er talið að það liggi fyrir fyrr en síðar í dag hvort þær leggist gegn frumvarpinu. 

mbl.is