Sarajevo-búar heimta sóttvarnaraðgerðir

AFP

Rúmlega 500 íbúar höfuðborgar Bosníu og Hersegóvínu, Sarajevo, – þeirra á meðal rithöfundar, læknar, blaðamenn og aðrir opinberir aðilar – krefjast þess að aðgerðir gegn kórónuveirunni verði hertar í kjölfar hópsmita í borginni.

Smitum hefur fjölgað mikið á síðustu dögum í Bosníu og Hersegóvínu, en á mánudaginn létust 16 í landinu af völdum kórónuveirunnar; heildarfjöldi látinna er um 440.

Í opnu bréfi til stjórnvalda sögðust íbúarnir hræddir vegna skorts á lágmarksaðgerðum til að bregðast við faraldrinum.

Líkt og mörg önnur ríki skellti Bosnía og Hersegóvína í lás þegar kórónuveiran barst til landsins, en útgöngubanni var aflétt í lok apríl. Ekki hefur verið blásið til frekari sóttvarnaraðgerða síðan.

Heildarfjöldi kórónuveirusmita þar er tæplega 15 þúsund, þar af 2.600 á síðustu tíu dögum.

Í bréfinu er kallað eftir því að samkomutakmörk verði sett, svo ekki fleiri en tíu mættu koma saman á hverjum stað, auk þess að bundinn verði endi á meintar deilur milli heilbrigðisstofnanna í landinu sem snúa að því hvernig skuli taka á faraldrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert