Tsikanovskaja komin til Litháen

Svetlana Tsikanovskaja.
Svetlana Tsikanovskaja. AFP

Helsti andstæðingur forseta Hvíta-Rússlands í nýliðnum kosningum, Svetlana Tsikanovskaja, er komin til Litháen að sögn utanríkisráðherra landsins. Hart var tekist á í átökum milli óeirðalögreglu og mótmælenda í gærkvöldi og í nótt, annan daginn í röð.

Utanríkisráðherra Litháen, Linas Linkevicius, segir Tsikanovskaja komna til Litháen og að hún sé heil á húfi. Hann gaf ekki upp nánari upplýsingar um komu hennar til landsins.

Litháen, sem er bæði í Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu, hefur ítrekað veitt stjórnarandstæðingum í Hvíta-Rússlandi og Rússlandi hæli en Litháen var áður hluti af Sovétríkjunum. 

AFP

Ekki hafði verið vitað hvar Svetlana Tsikanovskaja héldi sig en ekkert hafði spurst til hennar frá því í gær. Einn lést í átökum milli lögreglu og mótmælenda á sunnudagskvöldið en þúsundir streymdu út á götur Minsk og fleiri borga til að mótmæla niðurstöðu kosninganna á sunnudagskvöldið. Telja mótmælendur að ekki sé farið rétt með niðurstöður kosninganna en samkvæmt tilkynningu frá yfirkjörstjórn hlaut Alexander Lúkasjenkó 80,23% atkvæða, Tikhanovskaja 9,9% og aðrir minna. Forsetinn hefur verið við völd í 26 ár eða frá 1994 en hann er 65 ára gamall.

AFP

Tikhanovskaja sagði yfirvöld ætla sér að hanga á völdum þótt valdbeitingu þurfi. Sagði hún að úrslitum kjörsins hefði verið hagrætt.

„Kjósendur tóku sína ákvörðun en yfirvöld heyrðu ekki í okkur, þau hafa slitið sambandinu við kjósendur. Þau ættu nú að setjast niður og íhuga hvernig þau afhenda okkur völdin með friðsamlegum hætti. Ég lít á mig sem sigurvegara kosninganna,“ sagði Tikhanovskaja á blaðamannafundi í Minsk í gær.

AFP

Lögreglan beitti gúmmíkúlum, táragasi og reyksprengjum gagnvart mótmælendum sem svöruðu með grjótkasti og komu upp varnarveggjum á götum borga. 

mbl.is