Var ekki vopnaður

Frá vettvangi atviksins í gær.
Frá vettvangi atviksins í gær. AFP

Maðurinn sem bandaríska leyniþjónustan skaut í gær fyrir utan Hvíta húsið var ekki vopnaður. Þetta hefur dagblaðið Washington Post eftir heimildarmönnum innan löggæslunnar sem kunnugir eru rannsókn málsins.

Blaðamannafundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta var slitið í snatri í gær eftir að ljóst varð að maðurinn hafði verið skotinn, og var forsetinn færður í öryggisbyrgi sitt.

Stuttu síðar sneri hann aft­ur og út­skýrði fyr­ir blaðamönn­um hvað hefði komið fyr­ir: „Lög­gæslu­menn skutu ein­hvern, sem virðist vera sá grunaði. Og sá grunaði er á leið á spít­ala.“

Enginn liðsmaður í hættu

Maðurinn, sem er 51 árs, er af leyniþjónustunni sagður hafa nálgast liðsmann hennar á götuhorni þar sem fram fer skoðun á bifreiðum sem eru á leið inn á svæðið umhverfis Hvíta húsið. Mun hann þá einnig hafa sagst vopnaður, hlaupið í vígahug að liðsmanninum og tekið hlut undan klæðum sínum.

Þá er hann sagður hafa kropið og sett sig í stellingu til að skjóta. Liðsmaður leyniþjónustunnar hafi þá skotið hann og byssukúlan hæft hann í búkinn. Ekki er vitað um líðan mannsins, sem fluttur var á sjúkrahús.

Leyniþjónustan segir engan hafa komist inn í byggingar Hvíta hússins og að ekki nokkur liðsmaður hennar hafi verið í hættu.

Rannsakað verði hvers vegna maðurinn var skotinn.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2020/08/10/madur_skotinn_vid_hvita_husid_trump_i_byrgid/

mbl.is