Gefur lítið fyrir áhyggjur af öryggi bóluefnisins

Mikhail Murashko, heilbrigðisráðherra Rússlands, hefur engar áhyggjur af öryggi bóluefnisins.
Mikhail Murashko, heilbrigðisráðherra Rússlands, hefur engar áhyggjur af öryggi bóluefnisins. AFP

Áhyggjur og tortryggni í garð fyrsta bóluefnis gegn kórónuveirunni sem þróað var í Rússlandi er „algjörlega ástæðulausar“ segir Mikhail Murashko, heilbrigðisráðherra Rússlands. Fjöldaframleiðsla bóluefnisins er hafin og ráðherrann gerir ráð fyrir því að hægt verði að byrja bólusetja lækna eftir tvær vikur.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti greindi frá því í gær að Rússum hefði tekist að þróa fyrsta bóluefnið sem veitir varanlegt ónæmi gegn kórónuveirunni. Bóluefnið var þróað á Gamaleja-stofnuninni í Moskvu og nú á framleiðsla á tugþúsundum skömmtum að hefjast.

Vísindamenn frá öðrum ríkjum, þ.á.m. Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Bandaríkjunum, hafa lýst yfir tortryggni í garð bóluefnisins í ljósi þess hve fljótt það var þróað og telja sumir að öryggi þess hafi ekki verið kannað nægilega áður en það var prófað á mönnum. Rússar gefa hins vegar lítið fyrir áhyggjur af öryggi bóluefnisins en Pútín lýsti því yfir í gær að  dóttir sín hefði fengið bóluefnið.

„Það lítur út fyrir að erlendir kollegar okkar séu að kveikja á samkeppnisforskotinu sem rússneska bóluefnið myndar og að þeir séu að viðra áhyggjur sínar sem eru algjörlega ástæðulausar,“ sagði Murashko í samtali við fjölmiðilinn Interfax í dag. BBC greinir frá.

Hann bætti því við að fyrstu skammtarnir yrðu tilbúnir fljótlega. „Fyrstu skammtarnir af bóluefninu munu berast innan tveggja vikna, fyrst og fremst fyrir lækna.“ Rússnesk yfirvöld hafa boðað að almennar bólusetningar hefjist í október.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið það út að stofnunin hefði hafið samtal við rússnesk yfirvöld um að gera óháða rannsókn á bóluefninu, sem Rússar hafa gefið nafnið Spútnik-V.

Bóluefnið Spútnik-V verður framleitt í verksmiðju lyfjafyrirtækisins Binnofarm í bænum …
Bóluefnið Spútnik-V verður framleitt í verksmiðju lyfjafyrirtækisins Binnofarm í bænum Zelenograd sem er staðsettur rétt fyrir utan Moskvu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert