Lífstíðardómur fyrir að myrða fyrrverandi

Frá vettvangi glæpsins í október.
Frá vettvangi glæpsins í október. AFP

Austurrískur karlmaður var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyriir að myrða fyrrverandi kærustu sína, foreldra, bróður og nýjan kærasta hennar. 

Morðin framdi hann í október í fyrra á heimili kærustunnar fyrrverandi, sem var nítján ára gömul og bjó í foreldrahúsum. Hann gaf sig fram við lögreglu nokkrum mínútum eftir verknaðinn og játaði morðin. 

Tveir mánuðir voru liðnir frá því maðurinn og konan hættu saman. Fyrir dómi sagðist hann hafa séð konuna og föður hennar deginum áður en þau voru í fríi í skíðabænum Kitzbühel í Ölpunum. Hann hefði tekið byssu bróður síns og farið daginn eftir að húsinu þar sem fjölskyldan dvaldi.  Eftir að hafa drepið foreldra hennar og bróður klifraði maðurinn upp á svalir til að komast að herbergi konunnar og nýs kærasta sem sváfu á efri hæðinni. Í dómnum er morðingjanum lýst sem „sérstaklega kaldrifjuðum og svikulum“.

Morðin vöktu mikinn óhug og fjölmiðlaumfjöllun í Austurríki, en málið er eitt nokkurra sem hafa leitt til mikilla umræðna um ofbeldi gegn konum í landinu. Í síðasta mánuði var kalmaður dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir að reyna að myrða konu sína með heimatilbúinni sprengju í október í fyrra, sama mánuði og fimm manna fjölskyldan var myrt.

65 voru drepnir í Austurríki í fyrra, þar af 39 konur, en samkvæmt samantekt austurrísku lögreglunnar þekktu þrír fjórðu hlutar kvennanna morðingjann. Þá voru 41 af 73 sem myrtir voru árið 2018 konur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert