Rannsaka hvort veiran barst með frakt

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, er með til skoðunar að fresta þingkosningum vegna nýrra innanlandssmita en sérfræðingar rannsaka nú hvort kórónuveiran hafi borist til landsins að nýju með fraktskipi.

Heilbrigðisyfirvöld settu með skyndi hertar sóttvarnareglur í Auckland í gær eftir að fjögur ný smit greindust í borginni. Í dag hafa fjögur smit til viðbótar verið staðfest þannig að átta innanlandssmit hafa greinst þar undanfarna tvo daga. Þetta eru fyrstu innanlandssmitin á Nýja-Sjálandi í 102 daga.

Íbúum Auckland er nú gert að halda sig heima en um ein og hálf milljón býr í borginni. Ef ekki tekst að stöðva smitútbreiðsluna verður milljónum til viðbótar gert að vera heima. Ardern segir að verið sé að skoða hvort fresta eigi kosningum sem fram áttu að fara 19. september. Slíta átti þinginu í dag til að veita þingmönnum færi á að einbeita sér að kosningabaráttunni en ákveðið var að fresta þinglokum til mánudags svo hægt verði að sjá hvernig faraldurinn þróast. 

Ardern segir of snemmt að taka ákvörðun um framhaldið nú en þetta gefi þinginu tíma til að bregðast við. Hún er formaður jafnaðarmanna og er flokkur hennar með mest fylgi í skoðanakönnunum og fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að hún verði forsætisráðherra annað kjörtímabil. 

Fjölskyldan sem greindist með COVID-19 í gær hefur ekki farið úr landi og er nú unnið að smitrakningu. Landlæknir Nýja-Sjálands, Ashley Bloomfield, segir að verið sé að kanna hvort veiran hafi borist með frakt til landsins en karlmaður í fjölskyldunni starfar í kæligeymslu fyrir innfluttar vörur. 

„Við vitum að veiran getur lifað af í köldu umhverfi í töluverðan tíma,“ segir hann og vísar þar í aðstæður á vinnustað mannsins. Ef þetta verður sannreynt er talið að afleiðingarnar geti orðið skelfilegar fyrir viðskipti á milli landa sem eru þegar verulega löskuð vegna kórónuveirufaraldursins. 

Íbúar Auckland þurfa nú að halda sig heima í þrjá sólarhringa og er þar með frelsi þeirra á enda. Til að mynda má ekki lengur kaupa mat á veitingastöðum og taka með heim og ekki mega fleiri en tíu koma saman. Allir eru hvattir til að bera andlitsgrímur.

Kaupæði greip um sig meðal íbúa sem þustu í matvörubúðir til þess að birgja sig upp og langar biðraðir mynduðust við sýnatökustaði.

Öll hjúkrunarheimili landsins hafa lokað fyrir heimsóknir og eins er ólíklegt að hægt verði að halda íþróttaviðburðum áfram. 

mbl.is