14 ný smit á Nýja-Sjálandi

AFP

Enn fjölgar nýjum smitum á Nýja-Sjálandi en alls voru staðfest 14 ný smit þar síðasta sólarhringinn, daginn eftir að fjölmennasta borg landsins, Auckland, var sett í sóttkví.

Ástæðan fyrir hertum aðgerðum í Auckland eru fjögur smit í sömu fjölskyldu fyrr í vikunni en það voru fyrstu innanlandssmitin í landinu í meira en þrjá mánuði. Þrettán af smitum dagsins tengjast fjölskyldunni og eitt smit kemur erlendis frá en um er að ræða einstakling sem var í sóttkví. 

„Við sjáum með þessu hversu alvarleg staðan er sem við erum í,“ segir forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, á blaðamannafundi í dag. Hún segir að öll þau sem eru með staðfest smit séu komin í sóttkví og eins verði einhverjir þeirra sem hafa verið í tengslum við þau send í sóttkví.  

Heilbrigðisyfirvöld rannsaka nú uppruna smitanna og er verið að taka sýni úr fjölskyldu og vinnufélögum þeirra sem hafa smitast. 

Þau 13 sem greindust nú með smit tengjast fjölskyldunni á ýmsan hátt. Svo sem vinnufélagar og ættingjar þeirra.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina