Ekki fleiri dauðsföll síðan í maí

AFP

Tæplega 1.500 létust í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar síðasta sólarhringinn og hafa ekki verið svo margir síðan um miðjan maí. Tekist er á um að hefja skólastarf að nýju í landinu en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur rétt að börn mæti að nýju í skóla, fyrirtæki taki til starfa að nýju og íþróttafólk taki þátt í keppni að nýju.

Trump segir að 99,9% þeirra sem hafi látist í kórónuveirufaraldrinum séu fullorðnir. Hann hótar því að þeir skólar sem ekki taki til starfa fljótlega verði sviptir fjárveitingum frá alríkinu. 

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, segir að gert sé ráð fyrir því að 700 þúsund nemendur almennra skóla mæti í skólann í september en alls eru skólanemendur 1,1 milljón talsins í borginni. New York-borg er stærsta skólasvæði landsins og er það eina af þeim tíu stærstu sem ætlar að hefja kennslu í kennslustofum í upphafi skólaársins 2020-2021. 

Ríkisstjóri New York, Andrew M. Cuomo, sagði í síðustu viku að það væri í höndum skólastjórnenda að taka ákvörðun um hvenær tekið verði á móti nemendum svo lengi sem innan við 5% íbúa ríkisins greinist með kórónuveiruna að því er segir í frétt Washington Post.

mbl.is